Samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 11:40:28 (4321)

2001-02-08 11:40:28# 126. lþ. 66.1 fundur 412. mál: #A samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[11:40]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka undir þau orð síðasta ræðumanns að þessi þáltill. er seint fram komin. Það ætti ekki að vera vegna þess að menn hafi ekki haft andvara á sér. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það hefur varla farið fram hjá hæstv. utanrrh. að á haustdögum fór hér fram afskaplega ákveðin umræða um stöðu útlendinga vegna þess frv. sem þá var lagt fram af hálfu dómsmrh. Í raun og veru átti þá að lögfesta eitt afmarkað ákvæði sem tengist þessum samningi.

Ég ætla, herra forseti, að lesa þá grein sem átti að lögfesta og vakti hörð viðbrögð en hún var svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Útlendingur á ekki rétt á hæli hér á landi ef krefja má annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarsamningsins frá 15. júní 1990 um að taka við honum.``

Svo einföld voru þau skilaboð. Útlendingur á ekki rétt hér ef hægt er samkvæmt samningnum að skikka annan til að taka við honum. Þetta er auðvitað mjög hörð túlkun á því ákvæði sem nú er kynnt hér af hálfu utanrrh. og kemur fram í athugasemdum við till. til þál. vegna þess að þar er þvert á móti rætt um það sem réttindi í raun og veru að ,,samningnum er einnig ætlað að fyrirbyggja að umsóknir um hæli, sem lagðar eru fram í fleiri en einu aðildarríki, verði teknar til meðferðar í fleiri en einu aðildarríki. Í samningnum felst og að hafi umsókn um hæli verið hafnað í einu aðildarríki og umsækjandi sækir í framhaldi um hæli í öðru aðildarríki þá er hinu síðarnefnda heimilt að snúa umsækjanda til baka til þess fyrrnefnda án þess að taka umsóknina til meðferðar. Á hinn bóginn er síðarnefnda ríkinu ávallt heimilt að taka umsóknina til meðferðar þó því sé það ekki skylt á grunni Dyflinnarsamningsins.`` Ég sé ástæðu til þess að vekja athygli hæstv. utanrrh. og þingheims á því hversu varlega á að fara með orðalag þegar við erum að setja í lög ákvæði sem byggja á alþjóðasamningum sem við undirgöngumst. Þessar setningar í greinargerð utanrrh. fjalla um réttindi hælisbeiðanda og möguleika og í raun hvatningu til ríkja því jafnvel þótt búið hafi verið að fjalla um hælisbeiðni annars staðar, þá geti viðkomandi land ávallt ákveðið það að skoða þetta sjálft og fara með eigin skoðun á meðferð hælisbeiðandans. Ég geri mér alveg grein fyrir því, herra forseti, að við þurfum ekki að ræða um þetta mjög náið, svo mjög sem við fórum yfir það í nóvember, en það er umhugsunarefni að þegar við höfum rætt það svo oft að setja hér skýr lög um útlendinga, ekki síst hvað varðar réttindi þeirra og það á að sjálfsögðu við um þá útlendinga sem búa hér, um þá sem koma hingað sem erlent vinnuafl, um þá sem við sækjum sjálf og bjóðum búsetu í þessu landi og þá sem koma hér og banka á dyrnar sem hælisbeiðendur.

Nú fór það svo að hv. allshn. ákvað eftir að hafa skoðað frv., sem ég er að vísa til, að láta það bíða í nefndinni og skömmu síðar kom langþráð frv. fram í þinginu um réttindi útlendinga og það er til skoðunar í allshn. Þess vegna spyr ég hæstv. utanrrh. vegna þess að við erum í þeirri einstöku stöðu að hann leggur fram till. til þál. um fullgildingu samnings á sama tíma og lagafrv. um réttindi útlendinga eru til meðferðar í allshn., hverjir eru möguleikar okkar á grundvelli þessa samnings til þess að vera með eigin reglur í þessu landi, reglur sem byggðar eru á víðsýni, á skilningi og þar sem mannréttindi eru í heiðri höfð? Ég tel það mjög mikilvægt að við sýnum það í verki sem við höfum oft verið að segja að við séum land mannréttinda og að við ætlum að hegða okkur þannig í öllum verkum okkar. Það er ekki lítið atriði að vera með mannréttindaákvæði í stjórnarskránni og leggja áherslu á að vera þjóð sem byggir á mannréttindum og ég ætla að halda því að sjálfsögðu á mjög jákvæðan hátt til streitu hér þrátt fyrir vonbrigði okkar og átök um hvernig þetta mannréttindaákvæði var túlkað þegar kom að réttindum hóps hjá okkur sjálfum. Ég ætla að halda þeirri umræðu utan við en það er þannig með hæstv. utanrrh. að þó ég sé ekki sammála honum í öllu, þá verður að segja það honum til hróss að hann hefur áunnið sér nokkurn orðstír meðal þeirra sem hafa verið að fjalla um mannréttindamál hjá okkur fyrir það hvernig hann hefur tekið á þeim málum og fyrir það hvernig hann hefur talað á erlendri grund. Sjálf hef ég í umræðum um utanríkismál hvatt til þess. Ég tel að Ísland eigi að vera rödd mannréttinda í alþjóðasamskiptum, eigi að sýna fram á af hverju við erum með svo sterk ákvæði í stjórnarskrá eins og bann við dauðarefsingum, eins og mannréttindaákvæðin og ég hef hvatt ráðherrann til þess að vera þessi rödd og mér er kunnugt um það að hann hefur tekið á í nokkrum tilfellum, t.d. sem formaður í Evrópuráðinu, þannig að við getum alveg verið stolt af.

Þess vegna, herra forseti, er svo mikilvægt, þegar við erum að fara að vinna með þessa tillögu núna í utanrmn., að utanrmn. og allshn. vinni saman og við komum til baka með tillögu til síðari umr. og frv. til laga til 2. umr. frá allshn. þar sem ljóst er að hægri höndin hefur vitað hvað sú vinstri gerir. Þetta er í raun og veru það sem ég vil koma til skila í þessari umræðu. Talsmaður Samfylkingarinnar í umræðunni, Þórunn Sveinbjarnardóttir, hefur farið mjög vel yfir það hvernig meðferð hælisbeiðanda hefur verið hér á Íslandi. Í ræðum mínum fyrir jól setti ég fram skoðun mína mjög ítarlega við bæði þau frv. sem komu frá dómsmrh. og vísa til þeirra orða sem ég sagði þar en ég hvet til þessara vinnubragða af hálfu hv. Alþingis.