Samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 12:05:15 (4327)

2001-02-08 12:05:15# 126. lþ. 66.1 fundur 412. mál: #A samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[12:05]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef skilið hv. þm. svo að hann vilji standa utan þessa samstarfs, ég hef skilið hann þannig allan tímann og þess vegna voru þau orð sögð sem hann vitnaði hér til. Það má vel vera að það sé misskilningur og þá biðst ég velvirðingar á því.

En varðandi það að við hefðum getað fengið sömu niðurstöðu og Bretar og Írar þá tel ég að forsendan fyrir því hefði verið sú að Danmörk, Finnland og Svíþjóð hefðu leitað svipaðrar lausnar og Bretar og Írar þegar svokallaður Amsterdamsamningur var gerður. Við stóðum að sjálfsögðu algjörlega utan hans, og ég er þeirrar skoðunar að forsenda þess að við erum nú að ganga til þessara samninga sé ekki síst sú að við gengum ásamt hinum Norðurlöndunum frá samningi á sínum tíma um Schengen. Síðan var það ákveðið af Evrópusambandinu að yfirtaka þessi mál og þá lá sá samningur til grundvallar. Ef sá samningur hefði ekki legið til grundvallar á ég frekar von á því að Evrópusambandið hefði ekki verið mjög fýsandi þess að Noregur og Ísland væru með í þessu samstarfi. Forsendan hefur því allan tímann verið sá mikilvægi samningur sem gilt hefur í áratugi milli Norðurlandanna á þessu sviði um frjálsa för fólks.