Samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 12:07:10 (4328)

2001-02-08 12:07:10# 126. lþ. 66.1 fundur 412. mál: #A samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[12:07]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Nei, það er ekki misskilningur hjá hæstv. utanrrh. að ég hef miklar efasemdir um ágæti þessi samnings eða þátttöku Íslands í honum og var því andvígur að hann væri með þeim hætti sem hér hefur borið að. Ég tel að í öllu falli hefðum við átt að leita eftir því að fresta fullgildingu samningsins þó að við hefðum haft það í skoðun um einhvern tíma.

Það breytir ekki hinu að að sjálfsögðu hefði einhver samningsbundin skipan mála væntanlega komið til sögunnar í staðinn. Helst hefði ég auðvitað kosið að sjá Norðurlöndin áfram sem sameiginlegt svæði að þessu leyti utan Schengen en með mjög frjálslegum samningsreglum um frjálsa för ferðamanna o.s.frv. og greiðan aðgang okkar að svæðinu, eins og fjölmörg önnur ríki munu að sjálfsögðu hafa sem ekki eru aðilar að Schengen. Bandaríkin verða ekki aðilar að Schengen eða Kanada en milljónir og milljónatugir ferðamanna frá þessum löndum munu heimsækja Evrópu engu að síður. Það má því ekki stilla þessu dæmi þannig upp að þetta snúist um einhverja allsherjargaddavírsgirðingu sem menn séu annaðhvort innan við eða utan við. Það verða áfram ferðalög um heiminn þó að sum ríki séu í Schengen og önnur ekki.