Samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 12:13:20 (4332)

2001-02-08 12:13:20# 126. lþ. 66.1 fundur 412. mál: #A samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli# þál., ÞSveinb (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[12:13]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er umhugsunarvert að einhverjir skyldu hafa viljað færa þessi aldursmörk neðar en í 14 ár. Ég held að við ættum að velta því fyrir okkur. En ég segi enn og aftur, herra forseti, ég leyfi mér að efast um að þetta gangi. Við erum að ræða um börn og unglinga, ófullveðja einstaklinga, og það hlýtur að þurfa að huga nánar að þessu atriði, herra forseti, og það munum við gera í hv. utanrmn.

Um það sem hæstv. utanrrh. sagði, að beina fólki sérstaklega hingað, að það sé ekki stefnan, þá liggur það fyrir, herra forseti, það á ekki að beina fólki sérstaklega hingað eins og hæstv. ráðherra orðaði það. Hins vegar er það þannig og það stendur skýrt í þessari tillögu að Dyflinnarsamningurinn fjallar um málsmeðferð en ekki um innihald stefnu viðkomandi ríkis, stefnu um hvernig skuli hafa eftirlit og réttindi útlendinga. Það liggur alveg fyrir, herra forseti.

Þess vegna skil ég ekki alveg hvert hæstv. utanrrh. er að fara með slíkum málflutningi.