Lagabreytingar vegna Genfarsáttmála

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 12:14:51 (4333)

2001-02-08 12:14:51# 126. lþ. 66.2 fundur 180. mál: #A lagabreytingar vegna Genfarsáttmála# þál., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[12:14]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um lagabreytingar til að fullnægja ákvæðum Genfarsáttmálans um vernd óbreyttra borgara á stríðstímum. Hér er um endurflutning á ákaflega einfaldri tillögu að ræða og ég þarf því ekki að hafa um hana mörg orð. Tillögugreinin er svohljóðandi:

[12:15]

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa lagasetningu um viðurlög við stríðsglæpum í samræmi við ákvæði Genfarsáttmálans frá 1949 um vernd óbreyttra borgara á stríðstímum og viðauka við hann frá árinu 1977.``

Hér er í reynd um svo sjálfsagða tillögu að ræða, herra forseti, að ég tel tæpast að haldbærar mótbárur séu fyrir því að við drífum ekki í því þó seint sé að uppfylla þær skyldur sem við höfum tekið á okkur með aðild að þessum sáttmála og Genfarsáttmálunum sem eru m.a., og það er það sem á vantar að þessu leyti, að í 146. gr. sáttmálans er kveðið skýrt á um skyldur aðildarríkjanna. Þau skuldbinda sig til að lögleiða viðeigandi refsingar við alvarlegum brotum gegn ákvæðum sáttmálans. Sem sagt, það þarf að gera að innlendum lögum þau athæfi refsiverð sem sáttmálinn tekur til þannig að hægt sé að fullnusta brot ef til sögunnar koma á grundvelli refsiákvæða í innlendri löggjöf.

Sáttmálinn var undirritaður 12. ágúst 1949 og tók gildi ári síðar. Ísland fullgilti sáttmálann 1965 og hann tók gildi hvað Ísland snerti ári síðar. Tillagan er til þess að vekja enn athygli á og minna á að þarna höfum við ekki uppfyllt skyldur okkar þó svo að 34 ár séu liðin síðan sáttmálinn tók gildi hvað Ísland varðaði.

Ég hef lítillega skoðað hvort tilkoma alþjóðlega sakadómstólsins breyti að þessu leyti einhverju um stöðu okkar og mér sýnist að vísu við lauslega athugun að svo sé ekki, herra forseti. Ég held að eftir standi óbreytt sú skylda okkar að gera tilhlýðilegar ráðstafanir í innlendum lögum hvað varðar ákvæði Genfarsáttmálans þó að alþjóðlegi sakadómstóllinn komi til sögunnar, enda er skýrt tekið fram í þeim samningum að um er að ræða fyllingarsamning, þ.e. hann á fyrst og fremst að vera til viðbótar og til fyllingar þeim lögum sem einstök ríki hafa sett sér og á grundvelli alþjóðasáttmála. Í raun og veru er hlutverk Alþjóðlega sakamáladómstólsins, ef ég hef skilið það rétt, að hann á að loka þeim götum og þeim holum sem ella kynnu að vera í réttinum að þessu leyti. Hann hefur auðvitað almenna lögsögu, er ekki bundinn við einstök mál eins og stríðsglæpadómstóllinn í tilviki Júgóslavíu svo sem kunnugt er.

Mér sýnist, herra forseti, a.m.k. við lauslega athugun eins og ég tek aftur fram, þá standi þessi skuldbinding okkar óhögguð að gera tilhlýðilegar lagaráðstafanir. Ég held að það eigi að gera ósköp einfaldlega með rólegri og vandaðri yfirferð á þessum málum. Ég vil leyfa mér að spyrja af því að svo vel vill til að hæstv. utanrrh. er hér: Eru nokkur haldbær rök fyrir öðru en að við uppfyllum þessi ákvæði samningsins þó seint sé þannig að það sé til staðar í löggjöf okkar? Vonandi reynir seint og helst aldrei á það að við þurfum að beita þeim, en engu að síður lít ég svo til að eðlilegt sé að við höfum löggjöf okkar fullgilda að þessu leyti og tökum einnig alvarlega þær skuldbindingar sem á þessu sviði eru fólgnar í aðild okkar að mannréttindasáttmálum.