Lagabreytingar vegna Genfarsáttmála

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 12:23:31 (4335)

2001-02-08 12:23:31# 126. lþ. 66.2 fundur 180. mál: #A lagabreytingar vegna Genfarsáttmála# þál., Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[12:23]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir ræðu hans og ég fagna því að tillagan hefur þá a.m.k. leitt til þess að farið var yfir þessi mál. Mér kemur að vísu fyrri hluti svarsins nokkuð á óvart vegna þess að ég tel mig hafa áreiðanlegar upplýsingar um að lögregluyfirvöld hér á landi hafi borið við skorti á refsiákvæðum þegar spurst hefur verið fyrir um eða farið fram á rannsókn sem tengist þessum ákvæðum alþjóðlegra samninga, þá hafi því beinlínis verið borið við af viðkomandi yfirvöldum að hér hafi ekki verið lögfest sérstök refsiákvæði í samræmi við þessa 146. gr. Ef það er hins vegar skilningur að undangenginni vandlegri lögfræðilegri skoðun á því að ákvæði almennra hegningarlaga séu fullnægjandi í þessu efni þó að þau nefni ekki þessi brot sérstaklega, þá er það í sjálfu sér fagnaðarefni og má segja að við sleppum kannski fyrir horn með það að hafa ekki eins og flest önnur ríki hafa gert, þ.e. farið þá leið að lögleiða sértæk refsiákvæði sem vísi í viðkomandi brot, heldur nægi ákvæði almennra hegningarlaga, þá er það vel.

Varðandi Alþjóðlega sakamáladómstólinn eða fullgildingu Rómarsamþykktarinnar, þá vek ég aftur athygli á því að ljóst er að þar er um fyllingarlögsögu að ræða og ekki er ætlunin í sjálfu sér að hún leysi af hólmi löggjöf einstakra ríkja og skyldur þeirra á grundvelli annarra alþjóðasáttmála heldur á hún að fylla upp í götin og að því leyti var það mat mitt að hún kæmi ekki í stað þessara refsiákvæða. Hins vegar verður áhugavert að sjá frv. hæstv. dómsmrh. og hvernig refsiákvæði verða útfærð í þeim lögum. Ég bendi á þann möguleika til að taka af allan vafa að inn í það frv. væri auðvelt að taka einnig ákvæði sem vísuðu með pósitífum hætti til Genfarsáttmálanna og eftir atvikum jafnvel fleiri slíkra alþjóðlegra samningsskuldbindinga sem þá gerði það að verkum að við værum með óyggjandi hætti að standa við allar skuldbindingar okkar í þessu efni.

Ég hafði hugsað mér að leggja til, herra forseti, að tillagan gengi til utanrmn. þar sem ábyrgðin á alþjóðasáttmálum er á hendi utanrrh. en það er vissulega rétt að það er á verksviði dómsmrh. að setja síðan sjálf refsiákvæðin. Tillaga mín er að tillagan gangi til utanrmn. og þar fái þetta skoðun og við aðgang væntanlega að þeim gögnum sem hæstv. utanrrh. hefur látið taka saman í ráðuneytinu mun það auðvelda okkur að skoða málin hvort sem það leiðir síðan til þess að einhverra frekari aðgerða verði þörf eða ekki. Ég fagna í sjálfu sér niðurstöðunni á hvorn veginn sem hún verður því að það sem vakti fyrir mér í þessum efnum var að vekja athygli á stöðu þessa máls og fá það á hreint hvort við hefðum staðið við samningsskuldbindingar okkar að þessu leyti.