Skaðabótalög

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 12:28:04 (4337)

2001-02-08 12:28:04# 126. lþ. 66.4 fundur 50. mál: #A skaðabótalög# (tímabundið atvinnutjón) frv., Flm. BH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[12:28]

Flm. (Bryndís Hlöðversdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á skaðabótalögum, nr. 50/1993, með síðari breytingum. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Einar Már Sigurðarson, Jóhann Ársælsson, Össur Skarphéðinsson og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir.

Við breytingu á lögum nr. 50/1993 voru til umfjöllunar á Alþingi fyrir skömmu síðan tillögur um að til frádráttar skaðabótum fyrir tímabundið atvinnutjón kæmu 60% af bótum lífeyrissjóðanna og bætur sjúkrasjóða verkalýðshreyfingarinnar. Jafnframt var gerð tillaga um að 40% af eingreiðslu verðmæti bóta lífeyrissjóðanna kæmu til frádráttar bótum fyrir varanlega örorku. Tillögur þessar voru byggðar á niðurstöðum lögfræðinganna Gests Jónssonar og Guðmundar Jónssonar en í áliti þeirra segir: ,,Í frumvarpinu er fylgt þeirri stefnu, sem lengi hefur verið ríkjandi í íslenskum skaðabótarétti, að bætur sem falla tjónþola í skaut frá tryggingum sem hann hefur kostað sjálfur með greiðslu iðgjalds eigi ekki að hafa áhrif á skaðabótakröfu. Hins vegar telja frumvarpshöfundar rétt að til frádráttar komi bótagreiðslur sem telja má að séu af félagslegum toga. Í samræmi við þetta er gerð tillaga um ... að 40% af eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði verði dregin frá bótum.``

Nokkrir þingmenn í hv. allshn. mótmæltu þessari hugmynd á sínum tíma þegar skaðabótalögunum var breytt árið 1999 og var frsm. fyrir minni hlutann hv. þm. Ögmundur Jónasson en ásamt honum skrifuðu undir álitið hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og þáv. hv. þm. Kristín Halldórsdóttir. Þau mótmæltu þeim skilningi sem kom fram í frv. sem síðar varð að lögum. Því er lagt til í samræmi við þann málflutning að þessu verði breytt með því frv. sem hér er lagt fyrir.

[12:30]

Á sínum tíma þegar málið var til meðferðar í hv. allshn. vísuðu hv. þm. minni hlutans til m.a. mótmæla frá Landssamtökum lífeyrissjóða og frá Alþýðusambandi Íslands. Stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða gagnrýndi harðlega að verið væri að búa til enn eina tekjutenginguna á lífeyrisgreiðslur lífeyrissjóðanna. Sama tóns gætti í mótmælum frá Alþýðusambandi Íslands þar sem því var mótmælt harðlega að launafólki væri hegnt fyrir samtryggingarsparnað sinn og þeim sparnaði verði mismunað gagnvart öðrum sparnaði í samfélaginu sem ekki skerðir rétt til skaðabóta. Á það var bent að öll iðgjöld launafólks til samtryggingasjóða sinna séu hluti umsaminna launa og alfarið í eigu þess sama launafólks. Því var þessu mótmælt að hægt væri að draga þetta frá á þann hátt sem gert er í skaðabótalögunum og undir þetta er tekið í frv. sem hér er mælt fyrir.

Fyrir gildistöku skaðabótalaga árið 1993 tók Hæstiréttur Íslands stundum tillit til örorkulífeyris lífeyrissjóðanna þegar bætur voru ákveðnar. Þetta var ekki gert eftir ákveðinni reglu og stundum var ekkert tillit tekið til þessa lífeyrisréttar. Sú skoðun var talin staðfest af fræðimönnum og Hæstarétti að örorkulífeyri lífeyrissjóðanna bæri að jafnaði að meðhöndla eins og tryggingabætur úr vátryggingum sem tjónþoli hefði keypt sér sjálfur. Þetta þýddi að bætur lífeyrissjóðanna skyldu ekki koma til frádráttar skaðabótum.

Árið 1993 tóku gildi ný skaðabótalög sem fólu í sér staðfestingu framangreindra frádráttarreglna. Á árinu 1998 var tekist á um túlkun laganna og þá skýrt kveðið á um frádrátt vegna örorkulífeyris lífeyrissjóðanna og um eðli lífeyrissjóðsiðgjalda launafólks.

Í dómi Hæstaréttar frá 7. maí 1998 í máli nr. 281/1997 er tekið á þessu máli og þar segir, með leyfi forseta:

,,Í málinu liggja fyrir reglugerðir fyrir þá lífeyrissjóði og þann sjúkrasjóð sem áfrýjandi naut greiðslna frá á meðan hann var óvinnufær af völdum fyrrnefnds slyss. Af reglugerðum þessum er ótvírætt að réttur áfrýjanda til greiðslna réðst af framlögum í þágu hans til hlutaðeigandi sjóða. Þótt slík framlög hafi að nokkru verið greidd af vinnuveitendum áfrýjanda breytir það ekki því að þau voru hluti af þeim heildarlaunakjörum sem hann naut eftir lögum og kjarasamningum. Svarar þetta því til þess að áfrýjandi hafi unnið rétt til umræddra greiðslna með endurgjaldi úr eigin hendi.``

Þrátt fyrir framangreinda ályktun Hæstaréttar Íslands um eðli, innihald og meðferð á bótum lífeyrissjóðanna og um meðferð á bótum úr sjóðum verkalýðshreyfingarinnar segir í greinargerð allsherjarnefndar Alþingis með frumvarpi til breytinga á skaðabótalögum fjórum mánuð um síðar: ,,Ekki er lagt til að bætur skerðist vegna slysatrygginga eða annarra bótaúrræða sem tjónþoli hefur sjálfur kostað með greiðslu iðgjalds. ... er gerð tillaga um að frá bótum dragist 40% af verðmæti örorkulífeyris. Lengi hefur verið álitamál hvernig fara beri með örorkulífeyri við uppgjör slysabóta. ... Í eðli sínu er örorkulífeyrir samsettur annars vegar sem trygginga bætur sem tjónþoli hefur sjálfur greitt iðgjald af og hins vegar sem tryggingabætur þar sem vinnuveitandi greiðir iðgjaldið samkvæmt lagaskyldu.``

Með breytingunni árið 1998 sem varð að lögum 1999 er ljóst að Alþingi hefur skilgreint upp á nýtt viðkvæm hugtök á sviði vinnuréttar og almennra kjarasamninga og um leið vegið að réttindum launafólks sem hefur um árabil verið skylt að spara í eigin þágu 10% af launum sínum til lífeyrissjóðs síns.

Jafnframt er rétt að benda á að framlög launafólks til lífeyrissjóðs hafa að hluta verið skattlögð með öðrum launum. Lífeyrir lífeyrissjóðanna hefur síðan verið skattlagður að fullu við töku og komið til skerðingar á greiðslum almannatrygginga. Alþingi hefur margoft fjallað um óréttlætið sem í fyrrgreindri tvísköttun og jaðaráhrifum felst og það var ekki tilgangur þess að auka neikvæð áhrif lög- og skyldubundins lífeyrissparnaðar með breytingum á skaðabótalögum á síðasta þingi.

Herra forseti. Ég ætla ekki að halda því fram að menn hafi ekki gert sér ljóst hvað þeir voru að gera. Ég held að þarna hafi verið tekin markviss ákvörðun um að breyta fyrirkomulaginu á þann hátt sem verið hefur. En ég dreg það fram að með því er verið að mismuna sparnaðarformum fólks þegar tekið er tillit til þess sem fólk sparar í lífeyrissjóði og hins vegar gagnvart öðrum sparnaðarformum og það tel ég ekki eðlilegt að gera á þann hátt sem hér er gert. Ég legg því til að þessu verði breytt með frv. sem hér liggur fyrir.

Að lokum legg ég til að málinu verði vísað til hv. allshn. að lokinni þessari umræðu.