Skaðabótalög

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 12:39:43 (4341)

2001-02-08 12:39:43# 126. lþ. 66.4 fundur 50. mál: #A skaðabótalög# (tímabundið atvinnutjón) frv., Flm. BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[12:39]

Flm. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Lífeyrissjóðsgreiðslur eru lögvarið sparnaðarform sem komið var á að kröfu verkalýðshreyfingarinnar, að kröfu þeirra sem sömdu og hafa heimild og umboð til að semja fyrir launafólk á vinnumarkaði. Farið er fram á þessa lögvernd. En það er ekki þannig að ríkið hafi beinlínis komið þessu á til þess að létta af almannatryggingakerfinu. Ég minnist þess ekki á sínum tíma, enda er þessi umræða núna fyrst að koma ég vil segja með mjög auknum þunga, þ.e. að auka sífellt tekjutengingar til að tryggja það að því fólki sem þarf á bótum úr þessum kerfum að halda sé alltaf haldið í ákveðnu lágmarki.

Ég er ekki, herra forseti, almennt séð á móti því, langt í frá. Ég tel að tekjutengingar eigi rétt á sér í kerfi okkar og að jafna eigi kjörin, sérstaklega þó í gegnum skattkerfið. En það eru ekki að mínu mati nægileg rök að segja að slíkur grundvallarmunur sé á frjálsum sparnaði og ég vil ekki segja þvinguðum heldur lögvernduðum sparnaði að þeir sem velja sér hinn frjálsa sparnað geti þá verið algerlega fyrir utan það að taka ábyrgð á og í raun og veru verið fyrir utan það að búa við tekjutengingar vegna þess að þeir hafi farið frjálsa sparnaðarleið og þar með sé allt í lagi þó að þeir þiggi bætur frá almannatryggingakerfinu en haldi sínum frjálsa sparnaði bara fyrir utan. Ég velti fyrir mér hvers konar frelsishugsjón það er. Það verður þá að taka öll sparnaðarform með inn í þessa hugmynd og hugsanir hv. þm. Péturs Blöndals.