Skaðabótalög

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 12:51:00 (4343)

2001-02-08 12:51:00# 126. lþ. 66.4 fundur 50. mál: #A skaðabótalög# (tímabundið atvinnutjón) frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[12:51]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég gat ekki á mér setið en að koma í andsvar eftir að hafa hlustað á hv. þm. tala um fólk sem hefur lent í slysi og segja nánast að það sé alveg nóg fyrir það að fá 70% af launum eftir að hafa lent í slysi. Það er eins og skaðabæturnar séu einhver viðbótarþóknun eða einhver mikill lúxus fyrir þetta fólk --- svo eru margir sem fá alls ekki 70% launa.

Auðvitað er verið að bæta miklu meira en tekjumissi, það er verið að bæta miska og það er verið að bæta skaða þeirra sem lenda í þessum slysum. Vissulega er það svo þegar fólk hefur lent í alvarlegum slysum að það ber mjög mikinn kostnað af heilsufari sínu. Og að geta síðan verið að tala um það hér að því sé ekki of gott að fá bara 60--70 eða 80% af launum. Ég skil ekki hvaða afstaða þetta er til fólks sem hefur lent í alvarlegum áföllum eftir slys.

Herra forseti. Ég er undrandi að hlusta á hvernig hv. þm. leyfir sér að tala gagnvart fólki sem hefur lent í t.d. alvarlegum bílslysum eða öðrum slysum og þeim þörfum sem það fólk hefur. Vissulega er þetta mikið sanngirnis- og réttlætismál því að auðvitað er verið að fara fram á að ekki sé verið að mismuna fólki eftir sparnaðarformum og það fái skaðabætur sínar eftir slys. Ég er því undrandi, herra forseti, á afstöðu þingmannsins til þeirra sem hafa lent í alvarlegum slysum og eiga rétt á skaðabótum.