Skaðabótalög

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 12:52:46 (4344)

2001-02-08 12:52:46# 126. lþ. 66.4 fundur 50. mál: #A skaðabótalög# (tímabundið atvinnutjón) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[12:52]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég kom inn á það sérstaklega að það væri verið að bæta tekjutap. Miski er eitthvað allt annað og hann er líka innifalinn í skaðabótalögunum. Menn geta deilt um það hvort miskinn sé nægilega hátt metinn eða ekki hér á Íslandi, hann er reyndar óvenju lágur hér á Íslandi og mætti gjarnan skoða það mál sérstaklega. En það er bara ekki meiningin, það er ekki það sem við erum að ræða.

Að vera að núa mér um nasir að ég hafi ekki skilning eða samúð með þeim sem lenda í bílslysum, að færa umræðuna á svona tilfinningalegt svið, finnst mér vera ósanngjarnt, herra forseti. Við erum að tala um tekjumissi, við erum að tala um tekjutap, við erum að tala um krónur, við erum að tala um aura. Við erum ekki að tala um meiðsli eða áverka eða annað slíkt, við erum að tala um tekjutap. Mér finnst að þegar menn verða fyrir tekjutapi vegna slyss, --- tekjutapi, herra forseti, ég undirstrika það --- eigi að taka tillit til allra þeirra tekna sem menn fá út af slysinu, t.d. örorkulífeyris frá lífeyrissjóði og bóta frá sjúkrasjóðum sem þeir fá vegna skyldu þeirra til að borga í þessa sjóði, lagaskyldu. Ríkið hefur séð til þess að þeir fái þessar bætur og þá er óþarfi að ríkið sé að gera ráð fyrir að þeir fái bætur annars staðar frá vegna skaðabótalaganna, vegna sama atviks, vegna sama tekjumissis.

Það á að taka tillit til allra bóta sem menn fá annars staðar. Annars erum við með oftryggingu og annars erum við með of hátt iðgjald sem allir bíleigendur á landinu borga. Of hátt iðgjald sem allir borga í sjúkrasjóði eða í lífeyrissjóði.