Skaðabótalög

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 12:54:36 (4345)

2001-02-08 12:54:36# 126. lþ. 66.4 fundur 50. mál: #A skaðabótalög# (tímabundið atvinnutjón) frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[12:54]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég held ég hafi ekki notað orðið samúð því að ég efast ekki um að hv. þm. hafi samúð með þeim sem lenda í slysum. Aftur á móti virtist mér hann ekki hafa skilning á því í hvaða stöðu þetta fólk er og hvaða þörf það hefur fyrir viðbótarstuðning úr velferðarkerfinu vegna þess skaða sem það verður fyrir við að lenda í slysi. Það sem ég var að nefna, herra forseti, var að mér fyndist hv. þm. ekki hafa skilning á þeirri stöðu þar sem hann telur það bara nóg fyrir þann sem lendir í alvarlegu slysi að fá út úr lífeyrissjóðum og þeim sjóðum sem hann nefndi og eru u.þ.b. 70% af þeim launum sem viðkomandi hafði fyrir slysið.

Ég vil mótmæla því og ég er sannfærð um að það er nauðsynlegt bara ef jafnræðissjónarmið eru höfð til hliðsjónar að gera þá breytingu á lögunum sem er lögð til í þessu frv. því að auðvitað er verið að mismuna fólki í því hvort það er með frjálsan sparnað eða hvort það er með lífeyrissjóðasparnað.

Ég verð að nefna það, herra forseti, að hv. þm. hefur iðulega í umræðu um tryggingamál verið að tala um þá sem hafa svikist undan lífeyrissjóðssparnaðinum og hafa þá kannski verið með sparnað einhvers staðar annars staðar, að það fólk fær allan sinn sparnað og það skerðir ekki skaðabætur þeirra þegar það hefur lagt sinn sparnað einhvers staðar annars staðar. Þarna er því náttúrlega komin önnur hlið á sama peningi.