Skaðabótalög

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 13:41:28 (4348)

2001-02-08 13:41:28# 126. lþ. 66.4 fundur 50. mál: #A skaðabótalög# (tímabundið atvinnutjón) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[13:41]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir málefnalega ræðu. Það er rétt hjá honum að örorkulífeyrir er mismunandi hjá lífeyrissjóðunum, afskaplega mismunandi. Þar vil ég nefna Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins sem er með tiltölulega lágan örorkulífeyri, hann er ekki með framreikning. Einnig er staða lífeyrissjóðanna afskaplega mismunandi vegna þess að þeir hafa mismunandi aldurssamsetningu og þeir eru ekki með lífeyrisréttindi sem háð eru aldri og kyni, sem þyrfti að vera. Þetta eru vankantarnir og auk þess er ekki tekið fram í lögunum um lífeyrissjóði hver örorkulífeyririnn skuli vera.

Mér finnst hins vegar brýnt, þegar búið er að setja lög um að skylda alla Íslendinga til að vera í lífeyrissjóði og í sjúkrasjóði, það er líka lagaskylda, að tekið sé á því hvaða réttindi þeir eigi að lágmarki að fá. Það er gert í lögunum um lífeyrissjóði, en er dálítið opið gagnvart örorkulífeyri. Það þyrfti að skerpa á því ákvæði þannig að þar sé ákveðið lágmark og það lágmark verði þá tekið inn í skaðabótalögin sem lágmark og að fullu til frádráttar.

Í skaðabótalögunum mundi ég vilja lækka ávöxtunarkröfuna, sem þar er 4,5%, jafnvel niður í 3% eða jafnvel, herra forseti, hætta með eingreiðslur í skaðabótalögunum og taka upp samtímagreiðslur, þ.e. lífeyri sem kæmi fólki mikið betur. Ég hef rekist á mörg dæmi um að menn hafi lent í slysum og eytt upphæðinni snarlega í vitleysu og síðan verið illa tryggðir gagnvart örorku.

Ég vil endurtaka þakkir mína til hv. þm. um málefnalega ræðu. Þetta eru atriði sem mér finnst að hv. Alþingi þurfi að fjalla um en það er þannig, herra forseti, að það er Alþingi sem setur lög hér á landi.