Skaðabótalög

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 13:49:17 (4351)

2001-02-08 13:49:17# 126. lþ. 66.4 fundur 50. mál: #A skaðabótalög# (tímabundið atvinnutjón) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[13:49]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. að sjómenn eru sér á báti og ýmsir aðrir hópar, t.d. opinberir starfsmenn. Þeir eru líka sér á báti, bæði gagnvart sjúkrasjóði og örorkulífeyri.

Í stuttu andsvari getur maður ekki komið inn á alla þætti í því óskaplega flókna kerfi sem við höfum í dag. Ég setti því fram almenna fullyrðingu um að öllum bæri að greiða 1% af launum í sjúkrasjóði, sumir greiða reyndar meira, burt séð frá því hvort þörf sé á því eða ekki. Það er svo merkilegt, ég veit til þess að t.d. hjá verslunarmönnum var búið að semja um bætur fyrir sjúkdóma þegar lögin voru sett, einhverja nóttina hérna í félagsmálapakka fyrrverandi ríkisstjórnar, um að allir skyldu borga 1% af launum í sjúkrasjóði. Lögin um skylduaðild að sjúkrasjóðum eru með fádæmum. Það stendur bara að menn eigi að borga 1% í sjúkrasjóð en ekki nokkur skapaður hlutur um hvað eigi að gera við peningana. Það er ekki einu sinni markmið í lögunum. Það eina sem menn geta ályktað út frá er nafnið á fyrirbærinu, sjúkrasjóður á að tryggja, sjúkra-eitthvað.

Þetta er dæmi um óskaplega lélega uppbyggingu á velferðarkerfi. Hér hefur maður aftur og aftur heyrt umræðu þar sem menn gleyma þessum þætti velferðarkerfisins sem 1% af launum velflestra landsmanna rennur til. Menn gleyma jafnvel líka lífeyrissjóðunum, með 700 milljarða í sjóðum sínum, í umræðunni um velferðarkerfið. Ég held að brýnt sé að menn taki á því að gera kerfið skilvirkara og betra og það sem mest er um vert, að gera það einfaldara.