Skaðabótalög

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 13:53:02 (4353)

2001-02-08 13:53:02# 126. lþ. 66.4 fundur 50. mál: #A skaðabótalög# (tímabundið atvinnutjón) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[13:53]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þegar ríkið skyldar alla landsmenn til að borga í lífeyrissjóð til þess að þeir séu tryggðir, verði þeir fyrir áföllum, örorku, dauða eða verða mjög gamlir, þá er það trygging sem ríkið ætlast til að menn hafi. Ekki er hægt að bera þann sparnað saman við frjálsan sparnað sem menn ákveða að spara af eigin hvötum í stað þess að eyða peningunum. Þeim sparnaði sem hér um ræðir er þannig ætlað að veita ákveðna tryggingu. Sú trygging sem hér er um að ræða er skyldutrygging, er þannig stór hluti af velferðarkerfi okkar. Ég bendi á að lífeyrissjóðirnir borga jafnmikið í bætur og Tryggingastofnun á ári hverju, 15 milljarða.

Varðandi það sem hv. þm. sagði um verkefni sem sjúkrasjóðunum er ætlað að sinna er það akkúrat það sem ég benti á. Þeir hafa ekkert verkefni. Það stendur ekkert í lögunum um skylduaðild þar sem atvinnurekendur eru skyldaðir til að greiða 1% af launum starfsmanna inn í sjúkrasjóði. Til hvers á að nota peningana? Sjúkrasjóðirnir hafa flestir notað þetta, eins og hv. þm. kom inn á, til að bæta mönnum kostnað vegna sjúkdóma, jafnvel ferðir til Reykjavíkur eða eitthvað slíkt, sumir sjúkrasjóðirnir úti á landi hafa keypt íbúðir í Reykjavík fyrir fólk til að búa í þegar það þarf að leita sér lækninga. Aðrir hafa farið þá leið að fara í önnur verkefni, t.d. fæðingarorlof. Þar nefni ég sjúkrasjóð LV, þ.e. verslunarmanna. Menn hafa enga leiðsögn í lögunum um til hvers eigi að nota peningana, nema nafnið eitt, sjúkra-eitthvað.