Atvinnuréttindi útlendinga

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 14:02:49 (4356)

2001-02-08 14:02:49# 126. lþ. 66.3 fundur 48. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (erlendir makar íslenskra ríkisborgara) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[14:02]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Á síðasta þingi var lögunum um atvinnuréttindi útlendinga breytt og inn í þau tekið ákvæði um maka Íslendinga eins og hv. þm. gat réttilega um. Ég hafði frumkvæði að því og minnir að þetta ákvæði hafi verið tekið inn að minni beiðni í hv. félmn. Það var viljandi orðað eins og það stendur í lögunum nú, þ.e. að það væri bundið við hjúskap.

Ef þetta frv. færi fram eins og það er úr garði gert hjá hv. þm. þá finnst mér að það gæti verið hætta á að menn freistuðust til að ganga í gervihjónabönd, þ.e. til þess að útvega viðkomandi atvinnuleyfi, óbundið atvinnuleyfi. Þá væri hugsanlegt, ég er nú ekki að segja að þetta sé mjög líklegur möguleiki eða nein stórhætta, að um gervihjónabönd yrði að ræða þar sem annar aðilinn væri Íslendingur.

Það vill svo til að það er nefnd að störfum við að endurskoða lögin um atvinnuréttindi útlendinga. Formaður þeirrar nefndar er skrifstofustjóri í félmrn., Sigríður Lillý Baldursdóttir. Aðrir í nefndinni eru Magnús Norðdahl, tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands, Jón Magnússon frá Samtökum atvinnulífsins, Gissur Pétursson og Heiða Gestsdóttir frá Vinnumálastofnun. Ritari nefndarinnar er Ásta Helgadóttir lögfræðingur, ef ég man þetta rétt. Nefndin fjallar m.a. um þetta atriði. Væntanlega verður lögð til sú breyting að mögulegt sé að vikið verði frá kröfunni um að útlendingur þurfi að hafa fengið atvinnuleyfi við komuna til landsins. Sú krafa getur verið ósanngjörn. Væntanlega verður líka lögð til sú breyting að það megi víkja frá því skilyrði að útlendingur sem sækir um óbundið atvinnuleyfi hafi áður fengið tímabundið atvinnuleyfi, sé ákveðnum skilyrðum fullnægt. Í því sambandi eru m.a. til skoðunar þau tilvik þegar útlendur maki Íslendings hefur verið í hjúskap tiltekinn tíma.

Síðan verður tekið á fleiri þáttum, t.d. íslenskukennslu og samfélagsfræðslu, þ.e. að atvinnurekandi skuli hlutast til um að starfsmaður fái tækifæri til þess að sækja grunnnámskeið í íslensku og sé gert skylt að upplýsa starfsmann sinn um réttindi sín og skyldur. Starfsmaðurinn skuli og eiga kost á samfélagsfræðslu þar sem því verður við komið. Væntanlega verður líka tekið á sjúkratryggingum, þ.e. að atvinnurekandi sjúkratryggi erlendan starfsmann um leið og hann kemur til landsins. Eins verða skýrð ákvæðin um hvernig atvinnurekandi sé ábyrgur fyrir greiðslu á heimflutningi starfsmanns að loknum starfstíma ef hann verður óvinnufær um lengri tíma vegna veikinda eða slysa og enn fremur ef um er að ræða ráðningarslit sem starfsmaður á ekki sök á.

Það verða einhver ákvæði um fjölskyldusameiningu í nýju frv. Stefnt er að því að þessari nefndavinnu ljúki í lok þessa mánaðar. Að líkindum legg ég frv. fyrir þingið í byrjun mars ef allt gengur eftir. Þá er hægt að fjalla um frv. í hv. félmn. og jafnframt frv. sem hér er til umræðu sem væntanlega verður þá fyrirliggjandi í nefndinni.

Eins og ég sagði áðan óttast ég að hægt yrði að misnota þessi hjónabandsákvæði. Ég vil líka taka það fram að út af fyrir sig er það ekki kvöl eða pína að sækja um atvinnuleyfi. Væntanlega verður tekið á því með sanngirni, t.d. ef íslenskur maki viðkomandi fellur frá. Mér dettur ekki í hug annað en að við slíkar kringumstæður verði atvinnuleyfi veitt með hraði.