Atvinnuréttindi útlendinga

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 14:14:41 (4360)

2001-02-08 14:14:41# 126. lþ. 66.3 fundur 48. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (erlendir makar íslenskra ríkisborgara) frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[14:14]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég er einn af meðflutningsmönnum þessa máls. Mig langar að rifja það upp við þessa umræðu að á síðasta þingi, 125. löggjafarþingi, var gerð þessi breyting á lögum um undanþágu maka Íslendinga frá því að sækja um atvinnuleyfi. Ég fór þá sérstaklega í þennan ræðustól og lofaði og prísaði hæstv. félmrh. fyrir að gera þessa lagabreytingu.

Ég hafði þá einmitt, fjóra mánuði á undan, staðið í miklu stappi út af tengdadóttur minni, ættaðri frá Filippseyjum, sem framið hafði þann höfuðglæp að koma inn í landið á gestapassa þegar hún fór að gifta sig. Þess vegna fékk hún ekki atvinnuleyfi og ekki dvalarleyfi nema hún færi a.m.k. til Danmerkur og biði þar á meðan afgreiðslan færi fram. Þetta fundust mér sérkennilegir afarkostir, sérstaklega þar sem hér var um kvenkost að ræða sem var sérstakur fengur fyrir land og þjóð að fá inn í landið að mínum dómi. En svona voru reglurnar og svo sem ekki aðeins hún sem lenti í þessu heldur hafði samband við okkur fjöldi fólks sem lent hafði í miklum hremmingum vegna atvinnuleyfa, einmitt erlendir ríkisborgarar sem voru giftir Íslendingum.

[14:15]

En ég sá ekki við klókindum laganna varða í félmrn. því að ég í minni villtustu fantasíu gerði mér ekki grein fyrir að þetta yrði nú þannig eftir sem áður að ef maki þessara erlendu ríkisborgara félli frá þá væru þeir þar með komnir upp á guð og lukkuna. Ég hafði nú ekki hugsað svo langt. Þess vegna gerðist ég með mikilli gleði meðflutningsmaður að þessu frv. hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur þar sem lagt er til að hnykkt verði aðeins betur á réttarstöðu útlendinga sem giftir eru Íslendingum.

Auðvitað er örlítil hætta á að í einhverjum tilfellum sé um sýndarhjónabönd að ræða og að fólk sé að gifta sig eingöngu til að gera út á það að fá atvinnuleyfi. Ég reikna með því að alltaf sé eitthvað um örlítið um það. En ég held þó að jafnvel þótt einhverjir slíkir fengju venjulegt atvinnuleyfi, þá sé það nú, eins og rifjað var upp í ágætri ræðu sem hér var haldin áður en ég kom í þennan stól, ekki alveg óþekkt athæfi meðal Íslendinga sem iðkuðu það hér á árum áður að gifta sig til að fá út sparimerkin sín og lá nú ekki mikil alvara þar á bak við. Ég held að þessi hætta sé samt svo hverfandi lítil að það sé með einhverjum aðgerðum hægt að reyna að fyrirbyggja hana og náttúrlega er mjög mikilvægt að við séum samt ekki með einhverjum of hörðum reglum að knýja fólk til að vera áfram í hjónaböndum sem eru kannski óþolandi.

Ég ætla að fagna því líka sérstaklega sem fram kom hjá hæstv. félmrh. að verið er að endurskoða lög um atvinnuréttindi útlendinga hér á landi vegna þess að ýmislegt í þeim lögum kom mér t.d. á óvart þegar ég fór, allt í einu orðin slíkt tengdaforeldri, að athuga þetta mál. Þá kom mér mjög á óvart hve mikil forneskja og harka þarna er á ferðinni. Þarna er í ákveðnum köflum nánast eins og um sé að ræða þrælahald, t.d. ber atvinnuveitandinn algjörlega ábyrgð á þessum útlendingi sem hér starfar og það er alveg sama hvernig hann hagar sér, útlendingurinn getur ekki skipt um starf, ekki nema með sérstöku leyfi bæði ráðuneytisins að sjálfsögðu og svo þess atvinnurekanda sem réði hann til landsins. Ég verð nú að segja að ég átti ekki von á að rekast á slíkt ákvæði í íslenskum lögum og kom það mér satt að segja svolítið á óvart. Einnig það ákvæði að ef þetta blessaða fólk sem er að koma hér um langan veg til að vinna --- og þar sem ég þekki til og hef spurst fyrir um er það að langstærstum hluta alveg afburða vinnukraftur, það er auðvitað töggur í því fólki sem kemur yfir hálfan hnöttinn til að setjast einhvers staðar að þar sem það getur fengið að vinna --- að þá eru mjög hörð ákvæði t.d. um greiðslu bóta ef þessir útlendingar verða fyrir slysum á vinnustað. Það mun hafa komið upp mjög alvarlegt atvik varðandi pólska stúlku sem missti hönd í frystihúsi á Vestfjörðum, ef ég hef réttar fregnir, og hafði ekki dvalið hér í sex mánuði. Þar af leiðandi giltu ekki um hana venjulegar reglur sem gilda um þá sem lenda í vinnuslysum hér á landi. Ég held að það verði með einhverjum hætti í lögum að girða fyrir að slíkt geti komið upp, að fólk sem kemur hingað sé algjörlega réttlaust þegar slíkir atburðir verða og að sá atvinnurekandi sem er að ráða þetta fólk sé þá a.m.k. skyldugur til að kaupa sérstaka tryggingu fyrstu mánuðina ef ekki gilda almennar tryggingar í landinu um slík slys á vinnustöðum.

Ég fagna því að hin almennu lög um atvinnuréttindi skuli vera í endurskoðun. Ég bara vona að þau sýni sig hér sem fyrst. Þá fáum við tækifæri til að skoða þau. Ég hef ekki ástæðu til að efast um að þar verði um mikla réttarbót að ræða fyrir það fólk sem er að koma hingað um langan veg til að vinna fyrir okkur og sem við höfum gríðarlegan hag af að fá hingað til lands. Hagfræðingar hafa sagt við mig að sá hagvöxtur sem hefur verið hér á undanförnum árum sé ekki síst fyrir tilstuðlan þessa erlenda vinnuafls sem við höfum fengið til landsins.