Atvinnuréttindi útlendinga

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 14:22:53 (4361)

2001-02-08 14:22:53# 126. lþ. 66.3 fundur 48. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (erlendir makar íslenskra ríkisborgara) frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[14:22]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir þau varnaðarorð sem fram komu hjá hæstv. félmrh. áðan um þessi ákvæði, þ.e. að það sé ekki mikið mál fyrir erlenda aðila að ganga hér í hjónaband og öðlast þar um leið íslenskan borgaralegan rétt. Það gerist bara ekki svona annars staðar. Ég held að Íslendingar hafi ekki á móti því að taka á móti erlendu vinnuafli. Ég held að það þurfi auðvitað fyrst og fremst að aðlaga sig skjótt að íslenskum aðstæðum.

Ég minnist þess eftir að hafa setið í heilbr.- og trn. í átta ár að oft hafi komið upp á borðið mál þar sem erlendir aðilar sem komu hingað til lands drógu við sig að fara í heilbrigðisskoðun þangað til þeir höfðu gengið í hjónaband til þess að þurfa ekki að borga svo og svo háa upphæð fyrir heilbrigðisskoðun sem er eðlilegt að gerð sé áður en til hjónabands er stofnað. Það var vandamál sem við stóðum frammi fyrir. Og annað er það sem allt í einu er núna farið að snúast upp í andhverfu sína og varðar fólk sem kemur hingað til lands og slasast á fyrstu sex mánuðunum og á engan rétt í heilbrigðiskerfinu. Það eru ekki mörg ár síðan fólk talaði um að hingað kæmu Íslendingar sem hefðu verið búsettir erlendis um áratuga skeið til þess að njóta læknisþjónustu hér. En skattborgarar sem fyrir voru mótmæltu þessu og sögðu: Hvers vegna eigum við að borga skatta í heilbrigðiskerfið hér og síðan kemur fólk sem býr erlendis og borgar enga skatta eða skyldur hingað en nýtur góðs af því? Það var borgari sem mótmælti þessu og þess vegna var þessu m.a.a breytt í heilbr.- og trn. og því kemur mér ákaflega spánskt fyrir sjónir nú að af því að það er útlendingur sem hefur lent í slysi, átt bágt og atvinnurekandinn hafði ekki tryggt hann, þá eigi allt í einu að fara að breyta þessu kerfi aftur. (BH: Þetta er rangt.) Nei, þetta mál snýst ekki um það en þetta var m.a. það sem síðasti hv. ræðumaður kom inn á.