Atvinnuréttindi útlendinga

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 14:24:54 (4362)

2001-02-08 14:24:54# 126. lþ. 66.3 fundur 48. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (erlendir makar íslenskra ríkisborgara) frv., SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[14:24]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta andsvar kom satt að segja á skjóttum og snerti lítið það mál sem hér er til umræðu. En ég vil samt þakka fyrir það því það gefur mér tækifæri til að koma inn á þessi mál og skýra þau nokkuð nánar fyrir hv. þm.

Allir sem koma inn í landið, a.m.k. frá hinum svokallaða þriðja heimi, verða að fara í gegnum heilbrigðisskoðun áður en þeir fá atvinnuleyfi. Það er þannig. (Gripið fram í.) Þeir fá því ekki atvinnuleyfi og ekki skattkort og ekki neitt fyrr en þeir eru búnir að fara í gegnum mjög viðamikla heilbrigðisskoðun og það er vel. Það er hins vegar svolítið vandamál að sú heilbrigðisskoðun gengur mjög hægt fyrir sig. Það þyrfti kannski að liðka þar aðeins fyrir og smyrja hér og þar.

Svo er annað. Hann er að bera saman fólk sem er hér að vinna og borga skatta og skyldur, rétt þeirra og einhvers fólks sem er búsett erlendis og er svo að koma hingað og vill e.t.v. fæða börnin sín hér ókeypis. Ég er að tala um fólk sem er hérna að vinna, sem er hér í fullri vinnu og borgar skatta af hverri einustu krónu til íslenska samfélagsins. Ef við höfum um það einhverjar reglur að þetta fólk eigi ekki rétt í okkar kerfi fyrr en eftir svo og svo langan tíma --- auðvitað geta verið slíkar reglur, ég er ekki að segja það --- þá verða líka að vera um það reglur að þeir sem ráða þetta fólk verði að tryggja það, þeir verði að tryggja það með öðrum hætti. Það var það sem ég var að segja.