Umboðsmaður aldraðra

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 14:55:24 (4368)

2001-02-08 14:55:24# 126. lþ. 66.5 fundur 117. mál: #A umboðsmaður aldraðra# þál., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[14:55]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Hér er verið að ræða þáltill. frá þingmönnum Sjálfstfl. um umboðsmann aldraðra sem hefur komið til umræðu nokkrum sinnum, minnir mig, alla vega í minni tíð í þinginu. Ég hef yfirleitt tekið vel undir það að ágætlega væri til fundið að aldraðir hefðu sinn umboðsmann. Jafnvel mætti einnig segja að þörf væri á því að fatlaðir hefðu sinni umboðsmann með sömu rökum.

En í þessari þingsályktun segir:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að stofna embætti umboðsmanns aldraðra sem sinni gæslu hagsmuna og réttinda aldraðra.``

Ég verð að segja, herra forseti, að það er löngu orðið tímabært, sérstaklega í tíð þessarar ríkisstjórnar, að einhver gæti hagsmuna og réttinda aldraðra því eins og aldraðir hafa verið leiknir í tíð þessarar ríkisstjórnar þá veitir nú ekki af því, og hefðu hv. þingmenn Sjálfstfl. kannski átt að beita sér svolítið hér í þinginu fyrir hagsmunum og réttindum aldraðra, sérstaklega hvað varðar kjörin. Og af því að hv. 1. flm. þessarar tillögu vitnaði hér til eins málsvara aldraðra, Benedikts Davíðssonar, sem hefur tekið undir það að komið verði á slíku embætti, sem ég get alveg fallist á að sé alveg athugunar virði og kannski sé rétt að gera, þá vil ég vitna hér í annan forsvarsmann aldraðra sem er fyrrverandi landlæknir, Ólafur Ólafsson, sem skrifaði grein í Morgunblaðið í desember sl. þar sem hann bendir á að tæpur þriðjungur ellilífeyrisþega nær ekki lágmarksframfærslumörkum. Þriðjungur ellilífeyrisþega nú árið 2001 nær ekki lágmarksframfærslumörkum. Svona eru nú kjör aldraðra í tíð þessarar ríkisstjórnar sem er í aðstöðu til að bæta þessi kjör.

Herra forseti. Ég vil líka minna á að í tíð þessarar ríkisstjórnar eru aldraðir sem hafa lágmarkslífeyri, þ.e. hafa bara lífeyri frá almannatryggingunum, farnir að borga skatt. Þeir borga tugi þúsunda í skatt á hverju ári. Ég hefði haldið að sjálfstæðisþingmennirnir hefðu nú kannski átt að standa vörð um hagsmuni þessa hóps sem er verið að skattlegga hér. Það hefur ekki gerst fyrr en í tíð þessarar ríkisstjórnar að ellilífeyrisþegar sem eru eingöngu með almannatryggingabæturnar sér til framfærslu séu skattlagðir. Það hefði t.d. verið verkefni fyrir þennan hóp að huga að hagsmunum þessara öldruðu.

Ég veit að hv. þm. ber hag aldraðra fyrir brjósti. Ég hef unnið með honum í hv. heilbr.- og trn. og ég veit að hann vill hlut aldraðra sem mestan og hag þeirra sem bestan. Ég vil því spyrja hv. þm.: Hvað ætlar ríkisstjórnin og hans lið sem stýrir landinu að gera í sambandi við aldraða öryrkja? Nú er búið að breyta lögum þannig að öryrkjar eru með minni skerðingu vegna tekna maka. Ég spyr hv. þm. Ég vona að hann sé að hlusta á mig, herra forseti: Hvað hyggst hann gera með öryrkjann sem verður 67 ára og mun þá um leið, ef hann er í hjúskap eða sambúð, fá mun lægri framfærslu frá almannatryggingunum vegna þess að aðrar reglur gilda um aldraða en öryrkja hvað varðar tekjutengingar vegna tekna maka. Finnst honum réttlátt að öryrki sem verður 67 ára verði fyrir verulegri tekjuskerðingu við það eitt að ná þeim aldri? Telur hv. þm. að hann geti framfleytt sér á lægri bótum eftir að hann er orðinn eldri?

[15:00]

Ég hefði líka gjarnan viljað svara því sem hv. þm. varpaði fram í ræðu sinni um tryggingar aldraðra. Ég er alveg sammála að huga ber að þeim málum. Hann spurði: Hvað með aldraða sem flytja burtu og koma svo aftur eftir sex mánuði? Ég get upplýst hv. þm. um að ekki er sama hvert hinn aldraði eða lífeyrisþeginn fer. Ef hann fer til annarra landa en EES-landanna missir hann tryggingu sína. Hann missir sjúkratryggingar sínar við að fara úr landi, t.d. til Bandaríkjanna og flytja lögheimili sitt þangað. Þetta er auðvitað mál sem þarf að taka á. Ég er alveg sammála hv. þm. um að huga þarf að þeim réttindum. Aftur á móti mundi hann halda tryggingu sinni ef hann ferðaðisteða flytti innan EES-svæðisins, en ef hann flytti lögheimili sitt til annarra landa en EES-landanna mundi hann missa trygginguna. Þetta er sagt til upplýsingar, herra forseti, fyrst hv. þm. spurðist fyrir um þetta.

Ég hef, herra forseti, yfirleitt tekið ágætlega undir tillögu um umboðsmann aldraðra og höfum við jafnaðarmenn einnig flutt tillögu um umboðsmann fatlaðra sem full ástæða er til að gera. Aftur á móti hafa aldraðir ágætis félagsskap, samtök með sér sem hafa gætt hagsmuna þeirra og hafa verið baráttuaðilar fyrir kjörum þeirra og hefur reyndar ekki veitt af í seinni tíð eins og við vitum hvernig staðan hefur verið.

Ég minni á, herra forseti, að þegar þing hefur komið saman hafa einmitt þessir hópar, bæði aldraðir og öryrkjar, staðið fyrir utan þinghúsið í mótmælastöðu til að vekja athygli á kjörum sínum. Það hefur ekki gerst fyrr en í seinni tíð. Ég tel því löngu tímabært að hagsmuna þessa fólks, aldraðra, verði gætt.

Ég er ekki að tala gegn þessari tillögu en ég hefði gjarnan viljað sjá að þeir þingmenn sem flytja hana sýndu það víðar en í tillögunni, þ.e. í verki, baráttu fyrir betri kjörum einmitt aldraðra og réttindum þeirra.