Umboðsmaður aldraðra

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 15:04:36 (4370)

2001-02-08 15:04:36# 126. lþ. 66.5 fundur 117. mál: #A umboðsmaður aldraðra# þál., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[15:04]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég var einmitt að benda á að aldraðir öryrkjar falla einmitt inn í þennan ramma og verða fyrir verulegri kjaraskerðingu í kerfinu þar sem aðrar reglur gilda um aldraða en öryrkja. Þeir sem eru öryrkjar í gegnum lífið verða fyrir kjaraskerðingu og hagsmuni þeirra þarf auðvitað að rétta. Ég spurði hv. þm.: Hvað hyggst stjórnarliðið gera í málefnum þessa hóps? Það er það sem ég benti á.

Hv. þm. vitnar í leiðara Morgunblaðsins. Ég vitna í grein í Morgunblaðinu og gerði það áðan í máli mínu. Þar bendir Ólafur Ólafsson, fyrrv. landlæknir og formaður Félags eldri borgara, á að tæpur þriðjungur ellilífeyrisþega nær ekki lágmarksframfærslumörkum og að 23 þúsund ellilífeyrisþegar fá óskertan grunnlífeyri á mánuði en rúm 10 þúsund af þeim fá til viðbótar óskerta tekjutryggingu. Það eru sem sagt yfir 10 þúsund manns sem eru einungis með 48 þús. kr. í framfærslu. Þessar tölur segja okkur allt. Ég þarf ekki að nefna fleiri tölur, þessi umræða er búin að fara hér fram aftur og aftur. Ekki er hægt að halda því fram að það fólk sem er á tómum bótum almannatrygginga hafi það eitthvað gott, þ.e. sem hefur þær eingöngu til framfærslu. Þetta fólk hefur það mjög skítt og það þarf að velta fyrir sér hverri krónu og mjög margir hafa ekki til hnífs og skeiðar í lok mánaðar. Það veit ég af reynslunni því að mjög margir aldraðir hafa samband við mig og kvarta yfir þessu og við þingmenn Samfylkingarinnar erum nýbúin að vera hjá öldruðum í borginni og það er alls staðar fólk sem kemur til okkar og kvartar yfir bágum kjörum sínum.