Umboðsmaður aldraðra

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 15:16:00 (4374)

2001-02-08 15:16:00# 126. lþ. 66.5 fundur 117. mál: #A umboðsmaður aldraðra# þál., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[15:16]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að þakka hv. þm. Drífu Sigfúsdóttur fyrir þessa ræðu. Mér finnst hugmyndir hennar í sambandi við umboðsmenn neytenda vera mjög athyglisverðar. Hún bendir á að hann sé nánast umboðsmaður allra í samfélaginu og nefnir svo mjög athyglisvert dæmi um hvernig hann hefur barist fyrir réttindum t.d. fatlaðra og aðgengi þeirra að t.d. hraðbönkum og öðru. Mér finnst þetta hlutur sem við eigum að skoða og ættum kannski að skoða í sambandi við slíkar tillögur.

Ég nefndi áðan í máli mínu að við jafnaðarmenn höfum lagt fram tillögur um umboðsmann fatlaðra. Kannski er það einmitt leiðin sem hv. þm. Drífa Sigfúsdóttir bendir á að hér verði stofnað embætti umboðsmanns neytenda sem mundi þá beita sér fyrir réttindum og hagsmunum allra hópa í samfélaginu. Þá gæti hann tekið fyrir málefni aldraðra og fatlaða og síðan aðra þá sem telja á sér brotið eða eiga undir högg að sækja í samfélaginu. Mér finnst þetta vera athyglisverðar tillögur og dæmi sem hv. þm. Drífa Sigfúsdóttir kemur með inn í umræðuna um umboðsmann aldraðra.

Herra forseti. Þetta eru allt tillögur sem vert er að skoða.