Umgengni um nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 16:00:02 (4382)

2001-02-08 16:00:02# 126. lþ. 66.8 fundur 171. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (afli utan kvóta) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[16:00]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Þetta mál hefur oft komið til umræðu, þ.e. brottkast og hvaða leiðir væru til að koma í veg fyrir það. Þessi tillaga gerir ráð fyrir lausn á málinu og er ekki tilraun heldur breyting á lögunum og viðvarandi breyting. Þær tillögur aðrar sem hafa verið fluttar og hafa verið af sama tagi, þar sem sams konar úrlausnir eru í raun og veru á ferðinni, hafa að ég held flestar gengið út á að gerð verði tilraun með fyrirkomulag til að geta síðan í framhaldi af þeirri tilraun áttað sig á því hvort setja ætti viðvarandi reglu af þessu tagi í lögin.

Nú ætla ég ekki að dæma um hvor aðferðin er betri. Vissulega væri hægt að breyta lögunum aftur ef það sem hér er lagt til virkar ekki sem skyldi. Það er svo sem ekki mjög mikill munur á þessum tveimur aðferðum við að prófa sömu úrlausnina sem hér er verið að tala um. Þessi tillaga eða sú hugmynd sem er á bak við hana kom fram í a.m.k. þremur útgáfum á síðasta þingi að ég hygg, í tillögum frá hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni, tillögunni sem hér er til umfjöllunar núna og eins var tillaga af sama tagi í frv. um sjávarútvegsmál sem Samfylkingin lagði fram í fyrravetur en komst ekki til umræðu og liggur reyndar fyrir í því frv. sem Samfylkingin endurflutti í haust.

Ég hef ástæðu til að halda að býsna margir þingmenn séu samþykkir því að skynsamlegt væri að reyna þetta fyrirkomulag því að þó nokkuð margir hafa tekið þátt í að flytja mál af þessu tagi og ég veit að stuðningur við þessa hugmynd er víða. Ég vil aðeins koma að því sem hv. þm. nefndi áðan hvers vegna sjútvn. hefði ekki rætt slíka hugmynd núna þegar tillögur hæstv. sjútvrh. voru til úrlausnar. Því til að svara að ekki hefur verið mjög auðvelt að koma að öðrum hugmyndum þegar frumvörp ríkisstjórnarinnar hafa verið til umfjöllunar og afgreiðslu, a.m.k. ekki í hv. sjútvn. Ég geri ráð fyrir að býsna erfitt hefði verið að fá þessa hugmynd þar undir á einhvern hátt.

Ég tel hins vegar að þó svo að frv. hæstv. sjútvrh. um eftirlitsmenn hafi verið samþykkt breyti það engu um að þessi leið sé vænleg og að þau lög sem voru sett um eftirlitsmennina geti staðið áfram og geti verið gagnleg fyrir Fiskistofu og sjútvrn. til að fylgjast með því sem þarf að gera á miðunum. Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því að menn þurfi að fylgjast með veiðum og fyrir liggur að það er ekki endilega alltaf af sömu ástæðum sem fiski er hent í sjóinn. Við vitum að það getur komið til af fleiru en því að menn hafi ekki kvóta, þannig að Fiskistofu er náttúrlega ekkert skylt að beita þeim úrræðum sem felast í eftirlitinu en hefur þar aftur á móti heimildir í höndunum sem hún getur notað ef ástæða er talin til.

Ég vil nefna í þessu sambandi, sem hefur oft verið minnt á hér á hv. Alþingi, að 1992 eða 1993 voru samþykkt lög sem bönnuðu að fiski væri hent í sjóinn. Þeim var ætlað að tryggja að allur afli kæmi að landi og yrði meðhöndlaður í landi en ekki hent aftur í sjóinn, þ.e. því sem menn ekki gætu nýtt um borð í skipum. Þau lög voru afnumin áður en þau áttu að taka gildi 1996, ég segi því miður, vegna þess að þau lög voru framsækin. Þau voru auðvitað að sumu leyti álögur á útgerðina en það er margt sem bendir til þess að nýting þess hluta aflans sem nú er hent í sjóinn sé að verða hagkvæmari og hagkvæmari. Ég bendi t.d. á að nú er farið að flytja út afskurð frá frystitogurum, hann er saltaður og fluttur út og seldur fyrir mjög gott verð í dag. Ég held að ef menn eru skyldugir til að ganga vel um fiskimiðin, þá sé hluti af því að fleygja ekki afla í sjóinn, a.m.k. að það sé þá ekki gert nema vísindalegar sannanir séu fyrir því að það valdi ekki skaða á lífríkinu og einhver stjórn sé höfð á því sem þar er verið að gera.

Þau lög, eins og ég sagði áðan, voru afnumin áður en þau komust til framkvæmda vegna þrýstings frá áhrifamiklum aðilum í útgerð á Íslandi og forustumönnum LÍÚ. Ég tel það miður og tel að það þurfi að fara að skoða það mál aftur hvort ekki eigi að taka þau lög og endurskoða þau og lögfesta á ný, þ.e. að allur afli skuli koma að landi. Auðvitað hafa tapast þarna mörg ár úr þeirri þróun sem hefði orðið ef menn hefðu staðið frammi fyrir því í alvöru að þurfa að nýta þann hluta aflans sem er hent í sjóinn.

Ég er sammála hv. þm. um að áhrifin af þeim lagabreytingum sem hann leggur til mundu örugglega verða þau að menn mundu nánast hætta að henda fiski í sjóinn, það er alveg hægt að slá því föstu. Og þó að ég hafi í þeim tillögum sem ég hef tekið þátt í að flytja af þessu tagi gert ráð fyrir að þar væri um tilraun að ræða sem mundi færa mönnum heim sanninn um hvað hefði í raun og veru verið að gerast á miðunum, þá tel ég að það sé bara skilsmunur og ekki ástæða til að gera mikið úr muninum á þeim tillögum og þessari.

Mér finnst að menn verði að fara vandlega yfir þetta mál í sjútvn. og skoða hvort ekki er hægt að finna á því sáttaflöt, flytja tillögu og ná fram breytingu á lögunum á hv. Alþingi. Það er mikið í húfi. Sú umræða sem farið hefur fram um brottkastið er að mörgu leyti skelfileg vegna þess að ég held að eftir hana séu menn almennt sammála og almennt sannfærðir um að verið er að henda fiski í sjóinn. Það getur auðvitað enginn mælt það, það getur enginn sagt hvað það er mikið. Menn geta sagt hvað þeir halda að það sé mikið og sumir segja að það sé lítið, aðrir segja mjög mikið. Ég ætla ekki að vera með yfirlýsingar um það að öðru leyti en því að ég þekki marga sem hafa tekið þátt í að henda fiski í sjóinn og þeir hafa sagt mér af því sjálfir, ég hef því beina vitneskju um það. Þess vegna er það niðurstaða mín að mikið af fiski sé hent í sjóinn, a.m.k. af þeim fiski sem veiddur er í sum veiðarfæri, og mjög lítið sé hent í sjóinn af fiski sem veiddur er í önnur veiðarfæri. Þetta er misjafnt eftir aðstæðum, veiðarfærum og aðstæðum útgerða og gerir málið óskaplega flókið ef menn ætla sér að reyna að komast að niðurstöðu um hvað þetta er mikið í heild.

Ég held hins vegar að ef menn gerðu slíka breytingu, annaðhvort sem tilraun til ákveðins tíma eða með lögfestingu eins og hér er lagt til, sem er auðvitað hægt að taka til baka ef í ljós kemur að fiski hafi ekki verið hent því að það skilar sér í framhaldinu, það sést þá ef slík breyting verður gerð og ekkert breytist og menn landa engum fiski utan kvóta, þá hafa þeir sigrað í deilunni sem halda því fram að engum fiski sé hent. En því miður held ég að það muni ekki fara þannig.

Eina röksemd hef ég heyrt, sem ég sé ástæðu til að nefna hér sem áhrif af slíkri breytingu, gegn því að gera þá tilraun sem hér er verið að tala um. Hún gengur út á það að miklu meira yrði veitt. Menn muni hætta að forðast fisk sem þeir hafa ekki kvóta fyrir, halda óáreittir áfram að veiða á svæðum sem þeir annars færðu sig af og þannig mundi sóknin aukast og breytast. Ég get út af fyrir sig ímyndað mér að í einhverjum tilfellum geti þetta verið rétt en ég bendi á --- ég tek þetta upp vegna þess að þetta er í rauninni eina mótbáran sem ég hef orðið var við hvað þetta mál varðar, þess vegna tek ég hana hér upp --- að ég held að engu sé kastað með því, engum markmiðum kastað þó svo að menn veiddu meira. Þeir hefðu ekki hagnað af því, fiskurinn kæmi að landi, hann yrði unninn og mundi skila sér í gjaldeyri til þjóðarinnar og peningarnir rynnu til sameiginlegra þarfa sjávarútvegsins eins og hér er lagt til. Mér finnst því að þau rök sem þarna hafa verið færð fram gegn þessari hugmynd eigi ekki með neinu móti að fella hana. Að mínu viti er engu til hætt þó að tilraunin sé gerð vegna þeirra röksemda sem þarna hafa verið færðar fram.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég á sæti í hv. sjútvn. og mun fylgja því eftir þar að menn fari yfir þetta mál vandlega og það er full ástæða til þess. Greinilega er töluvert mikill stuðningur við að skoða þá hugmynd sem hér er á ferðinni, og ég endurtek, ég mun fylgja því eftir í nefndinni að svo verði gert.