Umgengni um nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 16:12:47 (4383)

2001-02-08 16:12:47# 126. lþ. 66.8 fundur 171. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (afli utan kvóta) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[16:12]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Verið er að mæla fyrir máli um hvernig tryggja megi að sá afli sem á annað borð kemur í veiðarfæri og kemur í langflestum tilfellum dauður inn fyrir borðstokkinn komi að landi. Þetta mál er mjög þarft og hið besta mál að það skuli koma fram í sérstöku frv. sem snýr eingöngu að þeim þætti, þ.e. að reyna að tryggja að sá afli sem á annað borð kemur á skip sé færður að landi þannig að séð verði í fyrsta lagi hvað veitt er og einnig hitt að þau verðmæti sem ella færu í súginn nýtist íslensku þjóðinni.

Ég vil hins vegar vekja athygli á því að því miður hafa slík viðhorf sem koma fram í frv. hv. þm. Péturs Blöndals, og ég tel hin þörfustu, haft lítinn hljómgrunn í sjútvn. Alþingis. Á síðasta hausti mælti ég í annað sinn fyrir þáltill. um stefnumál og grundvöll nýrrar fiskveiðistjórnar. Sú tillaga liggur í sjútvn. og hefur ekki enn þá verið tekin til umræðu.

[16:15]

Mig langar til gamans að geta þess að ég held að það hafi verið í október, hæstv. forseti, sem umræðu um þetta mál lauk í hv. Alþingi og málinu var vísað til sjútvn. Í 13. lið greinargerðar Frjálslynda flokksins í þessari tillögu sem fór til sjútvn. í október og hefur ekki enn þá komið þar til umræðu segir svo, með leyfi forseta:

,,Gert er ráð fyrir skyldu til að allur afli, sem á skip kemur, verði fluttur í land. Til að tryggja þetta og búa til hvata fyrir sjómenn og útgerðir til að sinna þessari lagaskyldu, þvert ofan í það sem núgildandi kerfi gerir, er gert ráð fyrir að slíkur lágverðsafli verði seldur á hæsta fáanlegu verði og andvirðinu skipt til helminga milli sérstaks brottkastssjóðs annars vegar en skips og áhafnar hins vegar. Reglunni er ætlað að ná því jafnvægi í þessum skiptum að hvatningin sé næg til að komið sé með fiskinn í land, en ekki svo mikil að slíkur veiðiskapur verði stundaður sem viðvarandi útgerð.``

Ég tel að þarna sé í raun lýst nákvæmlega sömu sjónarmiðum og koma fram í frv. hv. þm. Péturs Blöndals, þ.e. það vandamál sem viðurkennt er að er innbyggt í öll kvótakerfi sem notuð eru við fiskveiðar, að kvótakerfin valda því að menn velja úr aflanum og það upphefst brottkast ef mönnum tekst ekki að hafa þannig veiðarfæri í notkun að þau velji það sem menn vilja fiska. Það væri auðvitað hið æskilegasta ef mönnum tækist að nota þannig veiðarfæri að þeir gætu bara veitt það sem þeir ætluðu að koma með að landi eða sækjast eftir. Því miður er tæknin ekki það langt komin. En kannski verður svo einhvern tíma og vonandi fyrr en seinna. Það er auðvitað alveg gilt og rétt sjónarmið sem lýst hefur verið af þeim sem skoðað hafa m.a. og stundað sérstaklega veiðarfærarannsóknir. Ég get í því sambandi nefnt Netagerð Vestfjarða og Einar Hreinsson sem þar hefur staðið fyrir miklum tilraunum og veiðarfærarannsóknum. Það væri vissulega best ef hægt væri að gera veiðarfærin þannig úr garði að þau veldu það sem menn vildu veiða. Menn hafa auðvitað lýst áhuga á því og það kostar þá að setja af stað markvissar rannsóknir og leggja fram mikla fjármuni. En ég held að þegar upp verður staðið væru þeir fjármunir virkilega þess virði og er þá nánast sama hvaða veiðiaðferðir við notuðum eða stjórnkerfi. Við næðum meiri árangri við að nýta auðlindina rétt.

Ég vil vekja athygli á því að þau sjónarmið sem koma fram í frv. hv. þm. Péturs Blöndals hafa í raun legið fyrir í tillögu inni í sjútvn. sem ekki hefur enn fengið umfjöllun í nefndinni. Vissulega hafa sumir nefndarmenn í sjútvn., m.a. sá sem hér stendur og hv. þm. sem talaði á undan mér, Jóhann Ársælsson, lýst því að þeir vildu ræða svona mál í sjútvn., þ.e. hvernig eigi að setja reglur í lögin sem tryggja að allur afli komi að landi. Og á að setja þær reglur viðvarandi, eins og lagt er til í þessu frv. eða á að leggja þær til tímabundið og reyna þá að leiða í ljós hvert vandamálið er sem menn hafa verið að ræða í sambandi við brottkastið?

Ég vil hins vegar í þessari umræðu vekja athygli á því, og þeir vita það sjálfsagt sem fylgst hafa náið með fréttum og hafa mikinn áhuga á sjávarútvegsmálum vítt og breitt í veröldinni, að í fréttum undanfarið, t.d. frá Noregi, hefur komið upp svipuð umræða og var á Íslandi í sumar og vor um brottkast. Þar er reyndar stýrt með kvótakerfi sem er ekki alveg eins uppbyggt og okkar en kvótar eru þar eigi að síður þannig að menn lenda í takmörkum aflakvótans og þá fara menn ýmist að velja aflann, fara í brottkast eða landa fram hjá vigt og smygla aflanum á land með einhverjum aðferðum því öllum finnst mjög slæmt að þurfa að standa í að henda þessum fiski í sjóinn. Ég þekki engan sjómann sem gerir það með ánægju að grýta fiski fyrir borð.

Hitt er líka rétt að sjómenn hafa á undanförnum árum vanist talsvert við það að þurfa að búa við þetta hlutskipti. Ég þekki jafnvel unga sjómenn sem hafa aldrei verið á skipum þar sem ekki hefur verið valið úr aflanum eins og þeir kalla það. Þeir kalla það ekki lengur endilega brottkast. Þeir kalla það að velja úr aflanum. Því miður hafa menn lent í því alla sína starfsævi, þeir sem jafnvel eru búnir að starfa nokkur ár til sjós, að vera á tiltölulega kvótalitlum skipum eða jafnvel skipum sem hafa góðan kvóta en lenda í því einhvern hluta ársins að velja úr aflanum eins og kallað er.

Svo að ég víki aftur að þessari umræðu sem ég nefndi að hafi verið erlendis þá hafa slíkar umræður einnig tengst umræðu Evrópusambandsins um veiðar, m.a. í Norðursjó, og þekkt er að í Eystrasaltinu hefur slík umræða komið upp. Hún hefur komið upp hér hjá okkur og hún hefur komið upp við Grænland. Menn hafa heyrt þessa umræðu þar í sambandi við rækjuveiðar. En það er einn staður í Norður-Atlantshafinu þar sem slík umræða hefur ekki komið fram á undanförnum mánuðum og árum. Hvaða staður skyldi það nú vera? Það eru Færeyjar.

Í Færeyjum tóku menn þá ákvörðun fyrir nokkrum árum að setja á kvótakerfi að tillögu Dana. Færeyingar sjálfir töldu að þetta væri vond aðferð og aðalástæðan fyrir því að Færeyingar hurfu frá kvótastýringu við fiskveiðar var sú að það var upplýst hjá þeirra veiðimönnum að menn höfðu staðið í brottkasti á allt upp að 25% af aflanum. Þeir tóku þá ákvörðun þrátt fyrir lítinn fögnuð í Danaveldi að hverfa frá þessari kvótakerfisstýringu og losna út úr þessum brottkastsvandamálum. Og núna í nokkur ár hefur verið sóknarstýrt veiðikerfi í Færeyjum og eftir því sem ég veit best eru allir sammála um það sem koma nálægt fiskveiðum í Færeyjum, hvort heldur það eru útgerðarmenn, sjómenn, fiskvinnsluaðilar, stjórnmálamenn eða sveitarstjórnarmenn, hafnarverðir eða aðrir, að vilja ekki hverfa til baka. Það eru ekki sérstaklega háværar deilur um fiskveiðistjórnina í Færeyjum eins og hér á landi. Menn eru nokkuð sáttir við það kerfi sem þeir tóku upp og það hefur engin umræða komið upp á þessum eyjum í næsta nágrenni okkar um að menn séu enn að henda aflanum fyrir borð. Hins vegar hefur það komið í ljós að aflaverðmæti í Færeyjum hefur aukist á undanförnum árum. Þeir tóku það reyndar líka upp fyrir nokkrum árum að verðleggja allan fisk á fiskmarkaði. Eftir því sem ég veit best þá hefur þeim bara vegnað nokkuð vel í sínum sjávarútvegi undanfarin missiri. En það er ákaflega athyglisvert að hér á landi og nánast í öllum löndum í kringum okkur sem nota einhvers konar kvótakerfi skuli koma upp þessi brottkastsumræða. Þar kemur upp umræðan um framhjálöndun. Þar kemur upp að menn færi sig á milli veiðisvæða þaðan sem þeir hafa veitt einhverja aðra tegund og eru svo að skrá hana inn á ný veiðisvæði sem þeir koma á og þannig koll af kolli. Þetta er nákvæmlega það vandamál sem við höfum verið að fást við í okkar fiskveiðistjórn hér á landi, nákvæmlega. Það er svona uppbyggt og þess vegna er sú tillaga sem hér er flutt í frumvarpsformi mjög tímabær og hefði auðvitað verið æskilegt að hún hefði verið komin lengra í umræðunni en raun ber vitni. Auðvitað vonumst við, sem höfum haft verulegar áhyggjur af því hvernig umgengni við miðin er háttað og hvaða verðmætum í raun er verið að sóa með því að hafa kvótakerfið útfært eins og það er, til þess að tillaga eins og sú sem hér er um að ræða fái góðan byr í sjútvn. Ég held að það sé ekki síst ástæða til þess að hún fái slíkan byr í ljósi nýlegra yfirlýsinga sjútvrh. í Degi í morgun þar sem sjútvrh. lætur að því liggja að jafnvel séu litlar líkur til þess að sú ,,sáttanefnd``, því að mér skilst að ákaflega lítil sátt sé þar innan dyra, ljúki störfum fyrir vorið eða það tímanlega að fram komi efnislegar tillögur til þess að ræða um hvernig fiskveiðistjórninni verður skipað á næstu mánuðum að tillögu sáttanefndarinnar. Þess heldur er ástæða til að taka á svona máli þar sem vitað er að verðmætin fara í súginn. Það þýðir ekkert að deila um það. Svo mikið hefur komið upp á yfirborðið í þessari umræðu að það þýðir ekki lengur að deila um að mikil verðmæti fara í súginn í þessu kvótakerfi.

Reyndar er það svo, svo að ég endurtaki það, að flestir sem á annað borð fylgjast með umræðunni um stjórn fiskveiða viðurkenna að inn í öll kvótakerfi er innbyggður hvati til þess að velja úr aflanum. Það fylgir þeim óhjákvæmilega. Nánast allir sem á annað borð vilja ræða þessi mál hlutlaust og tala um þau öðruvísi en sem trúarbrögð viðurkenna að kvótakerfið hefur þennan annmarka. Það kann að hafa ýmsa aðra kosti en það hefur tvímælalaust þennan annmarka að menn velja úr aflanum og koma ekki með að landi verðlítinn afla. Ég held að íslenska kvótakerfið sé verst hannað allra kvótakerfa sem ég þekki að þessu leyti og það er vegna þess að í því er framseljanlegur hvati. Menn geta framselt aflaheimildirnar eins og þeir vilja og þegar það bætist við að menn þurfa að leigja þennan afla til sín fyrir kannski á annað hundrað krónur þá gefur augaleið að þeir sem eiga að gera út undir þeim formerkjum eru auðvitað að sækjast eftir dýrasta aflanum. Og þá lenda þeir auðvitað í því við að ,,nýta sína hagkvæmni`` að velja úr þeim fiski sem þeir fá á skip.

Svoleiðis hefur umræðan verið hér á landi að jafnvel þessi kalda staðreynd hefur ekki fengist viðurkennd af þeim sem hafa haft íslenska kvótakerfið fyrir trúarbrögð og hafa ferðast um veröldina til að tilkynna það að Íslendingar hafi fundið upp eilífðarkerfi í fiskveiðum og það besta sem við verði búið. Við höfum því miður átt slíka trúboða sem sendir hafa verið af stjórnvöldum um víða veröld. Hins vegar verður að segjast öllum til ánægju að þeir hafa náð litlum árangri. Fáar þjóðir hafa farið í að taka upp eftir okkur íslenska kvótakerfið með því braski og leiðindum sem því hafa fylgt.

Ég vil að endingu vonast til þess, og láta það verða mín lokaorð, að sú tillaga sem efnislega er hér til umræðu og fellur að tillögum sem aðrir hafa flutt, eins og ég gat um í upphafi máls míns og hv. þm. Jóhann Ársælsson gat einnig um, fái málefnalega umfjöllun í sjútvn. og verði ekki afgreidd þar eins og einhver tillaga sem þarf að leggjast á og setja út í horn vegna þess að menn fást ekki til þess að ræða raunveruleikann og galla í íslenskri fiskveiðistjórn.