Umgengni um nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 16:39:05 (4388)

2001-02-08 16:39:05# 126. lþ. 66.8 fundur 171. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (afli utan kvóta) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[16:39]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil einkum svara því í svari hv. þm. Péturs H. Blöndals sem laut að almennri fiskveiðistjórnun þegar hann bar saman þessi kerfi, annars vegar aflamarkskerfið og hins vegar sóknarmarkskerfið. Það er nefnilega innbyggt í kvótakerfið að þegar og ef, það gerist oft, að aflabrögðin verða tregari en gert er ráð fyrir í úthlutuðum kvótum þá breytist kvótakerfið í harðasta sóknarkerfi sem þekkist í veröldinni. Þeir sem illa gengur framselja til annarra sem betur gengur eða eru á stærri og öflugri skipum. Nákvæmlega sama mundi gerast ef sett yrði eins kvótakerfi yfir smábátaflotann og er í stóra flotanum. Þegar illa áraði og erfið tíð væri og smærri skipin gætu ekki sótt sjó þá mundu þau auðvitað framselja rétt sinn yfir til hinna. Það gæti hins vegar orðið til þess, ef saman færi svo aflasamdráttur og veiðisókn, að allir færu á fleygiferð.

Þetta fyrirbæri þekkjum við af Íslandsmiðum fiskveiðiárið 1992--1993 þegar allur flotinn var á fullri ferð að leita að þorski og hamast við að veiða hann vegna þess að menn töldu að þeir ættu fisk í sjónum. Sumir áttu úthlutun, aðrir höfðu leigt til sín. Þá var beitt hörðustu sókn sem nokkurn tíma hafði sést við veiðar á þorski. Afleiðing þessa kann að hafa verið að nauðsynlegt þótti að skera aflann niður í 155 þúsund tonn. Reyndar voru ekki allir sammála um að svo neðarlega þyrfti að fara enda hefur reynslan sýnt fram á annað.