Umgengni um nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 16:44:30 (4391)

2001-02-08 16:44:30# 126. lþ. 66.8 fundur 171. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (afli utan kvóta) frv., Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[16:44]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Vel má vera að Færeyingum hafi tekist að sníða agnúa af sóknarmarkskerfinu þannig að það sé manneskjulegra og ekki eins hættulegt. Segja má að sú hugmynd sem hér er verið að ræða sé tilraun til að sníða af agnúana á aflamarkskerfinu, ég á við þá tæknilegu agnúa sem fylgja báðum kerfum.

Hinn vandinn, eignarhaldið og framsal á honum er miklu meira mál. Mér finnst alltaf að kerfi sem þvingar fólk til lögbrota, eins og núverandi kerfi gerir að einhverju leyti og ég gat um í framsögu minni, leiði til siðleysis. Ef menn geta brotið ein lög með því að velja afla eins og hér kom fram þá er það siðleysi sem leiðir til brota á öðrum lögum. Það getur verið mjög hættulegt. Auðvitað eiga lög að vera þannig að menn fari eftir þeim.

Ég tel hins vegar, eins og hv. þm. var að segja varðandi endurskoðun á löggjöfinni, að kannski væri brýnast að létta af kvöðum á útgerðinni, miklum og illskiljanlegum lagalegum kvöðum. Ég stórefa að nokkur maður skilji nákvæmlega alla þá lagasetningu sem er í kringum sjávarútveginn á Íslandi. Ef hann þykist hafa skilið það með því að lesa lögin þá tekur við fjöldinn allur af reglugerðum sem þarf að skoða. Þegar menn hafa skoðað það allt saman kemur að framkvæmdinni en hún er kannski allt önnur.