Lokun pósthúsa á landsbyggðinni

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 15:38:22 (4421)

2001-02-12 15:38:22# 126. lþ. 67.1 fundur 281#B lokun pósthúsa á landsbyggðinni# (óundirbúin fsp.), JB
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[15:38]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Í blöðum nýverið, nú síðast í Dagblaðinu í dag, er greint frá því að Íslandspóstur hf. hafi ákveðið að loka útibúi sínu á Hofsósi frá næstu mánaðamótum og sömuleiðis er gert ráð fyrir lokun pósthúss í Varmahlíð. Lokun pósthúss á Skagaströnd hefur einnig verið ákveðin og lokanir pósthúsa víðar um land hafa bæði verið yfirstandandi og eru væntanlegar.

Í umræðu á Alþingi í fyrra vildi hæstv. samgrh. ekki gera mikið úr því að til stæði að loka pósthúsum en nú virðist annað vera uppi á teningnum.

Herra forseti. Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. samgrh.: Eru þessar lokanir og þessi stefna Íslandspósts með fullum vilja og vitund hæstv. samgrh. sem fer með hlutabréf þessa fyrirtækis? Er það sem nú er að gerast í póstmálum skipulagður liður af hálfu ríkisstjórnarinnar í byggðaaðgerðum að loka pósthúsum og segja þar upp fólki, fólki sem hefur starfað í mörg ár, fólki sem meira að segja vann á Þorláksmessu og bar út póst óumbeðið á eigin kostnað? Hefur hæstv. samgrh. haft samráð við byggðamálaráðherrann um þessar aðgerðir í byggðamálum sem þarna er verið að vinna svo ötullega að? Veit hæstv. samgrh. hversu miklum sparnaði er hægt að ná með þeim lokunum sem þarna er verið að vinna að? Hvenær er ætlunin að stöðva þessar lokanir eða niðurlagningu pósthúsa úti á landi? Er einhver áætlun sem þarna er unnið eftir með vilja og vitund hæstv. ráðherra?