Lokun pósthúsa á landsbyggðinni

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 15:43:00 (4423)

2001-02-12 15:43:00# 126. lþ. 67.1 fundur 281#B lokun pósthúsa á landsbyggðinni# (óundirbúin fsp.), JB
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[15:43]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég vek athygli á þeim orðum hæstv. ráðherra að hér væri ekki óeðlilega að staðið í byggðamálum af hæstv. ríkisstjórn um fækkun starfa úti um land. Það er sjálfsagt að hæstv. ráðherra finnist það vera hið besta mál.

Ég velti því fyrir mér hvort hæstv. ráðherra hafi rætt þetta við hæstv. byggðamálaráðherra, hvort sú stefna Íslandspósts sem hann var að kynna sé meint og skipulögð stefna af hans hálfu sem fer með þau mál því að þó að skipuð sé stjórn fyrir fyrirtækið þá starfar hún náttúrlega samkvæmt pólitískri sýn ríkisstjórnarinnar. Hefur verið rætt við heimamenn þegar verið er í grundvallaratriðum að breyta skipulagi þjónustunnar? Hvernig er eiginlega staðið að þessu öðruvísi en að lúta lögmálum hendingarinnar um arðsemi einhvers fjár í Reykjavík?