Lokun pósthúsa á landsbyggðinni

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 15:44:00 (4424)

2001-02-12 15:44:00# 126. lþ. 67.1 fundur 281#B lokun pósthúsa á landsbyggðinni# (óundirbúin fsp.), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[15:44]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Auðvitað þurfum við að huga mjög að því að verja byggðirnar en ég held að það sé sem betur fer þannig að þær standi ekki og falli með því hvort við höldum óbreyttri starfsemi póstþjónustunnar í landinu þrátt fyrir breytingar í henni. Við getum ekki litið fram hjá því að þarna hefur orðið ákveðin þróun.

Á hitt er að líta að um leið og við höfum verið að hagræða, og það á einnig við um póstþjónustuna á höfuðborgarsvæðinu, hefur Íslandspóstur tekið ákvarðanir um að færa tiltekin verkefni út á land sem hægt er að vinna þar. Ef hv. þm. leitar sér upplýsinga um það hjá Íslandspósti hf. þá gæti hann væntanlega komist að raun um að svo hefur verið og að því er unnið.

Ég vil bara leggja áherslu á að í mínum huga skiptir mjög miklu máli að við tryggjum póstþjónustuna í landinu og að því er unnið fullum fetum.