Útboð á kennslu grunnskólabarna

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 15:58:33 (4430)

2001-02-12 15:58:33# 126. lþ. 67.91 fundur 285#B útboð á kennslu grunnskólabarna# (umræður utan dagskrár), menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[15:58]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég er spurður í fyrsta lagi: Áformar menntmrh. að verða við beiðni bæjaryfirvalda í Hafnarfirði um að bjóða út kennslu til handa grunnskólanemendum í nýjum skóla í Hafnarfirði?

Svarið er þetta: Menntmrn. hefur fengið bréf frá bæjarstjóranum í Hafnarfirði þar sem óskað er eftir því að ráðuneytið veiti Hafnarfjarðarbæ undanþágu á grundvelli 53. gr. laga nr. 66/1995, varðandi heimild til útboðs kennsluþáttar í fyrirhuguðum grunnskóla bæjarins í Áslandi. Jafnframt er óskað eftir leyfi til reksturs hans sem tilraunaskóla. Áform Hafnarfjarðarbæjar virðast í öllum aðalatriðum nægilega skýr til þess að heimila megi þetta útboð með þeim fyrirvara að ráðuneytið fái til skoðunar drög að endanlegum samningi Hafnarfjarðarbæjar og verksala. Næstu daga munu embættismenn menntmrn. ræða við fulltrúa Hafnarfjarðarbæjar og leggja áherslu á mikilvægi þess að ekki verði gengið á þau réttindi sem nemendur og foreldrar þeirra hafa samkvæmt gildandi lögum og aðalnámskrá.

Þá er spurt: Standast áform Hafnarfjarðarbæjar um útboð og kennsluþætti í nýjum skóla í Hafnarfirði grunnskólalög að mati menntmrh. eða mun ráðherra legga fram frv. til breytingar á lögunum til að koma megi til móts við ætlan ráðamanna í Hafnarfirði?

Svarið er þetta: Sumarið 1999 gengu erindi á milli menntmrn. og skólaskrifstofu Hafnarfjarðar þar sem hún óskaði eftir mati ráðuneytisins á því hvort sú leið að bjóða út allan rekstur grunnskóla, þar með kennslu, væri fær. Menntmrn. taldi ekki ljóst á því stigi málsins með hvaða hætti útboð og einkarekstur á skólanum gæti orðið. Skólaskrifstofan gerði ekki ráð fyrir að um einkaskóla væri að ræða og þess vegna virtist sú leið sem skrifstofan kynnti ráðuneytinu kunna að kalla á lagabreytingu. Ráðuneytið lýsti því á hinn bóginn yfir að það teldi koma til álita að vinna að framgangi málsins sem tilraunaverkefnis á grundvelli heimildar í 53. gr. laga nr. 66/1995, um grunnskóla. Verði beiðni bæjarstjórnar Hafnarfjarðar samþykkt og stofnað til þessarar tilraunar verður lagt mat á framgang hennar áður en ráðuneytið hefur frumkvæði að tillögu um breytingu á grunnskólalögunum.

[16:00]

Í þriðja lagi er spurt: Hafa bæjaryfirvöld í Hafnarfirði fengið fyrirheit um jákvæða afstöðu menntmrn. á undirbúningsstigi málsins? Svarið er þetta:

Í lok bréfs ráðuneytisins til skólaskrifstofu Hafnarfjarðar frá 22. júlí 1999 segir að hafi bæjarstjórn Hafnarfjarðar áhuga á að ganga til þessa verkefnis á grundvelli heimildar samkvæmt 53. gr. grunnskólalaga, sé nauðsynlegt að hún móti tillögur sínar frekar og kynni þær ráðuneytinu. Menntmrh. mun ekki hafa forgöngu í máli þessu heldur mæta ósk um heimild til að nýta ákvæði umræddrar lagagreinar eins og segir í bréfinu.

Þá er spurt í fjórða lagi: Telur menntmrh. að útboð á börnum styrki skólastarf á grunnskólastigi og jafnræði til náms sem er hinn rauði þráður þessarar grundvallarsamfélagsþjónustu? Ég tek undir með hæstv. forseta að það að tala um útboð á börnum í þessu sambandi er rangnefni. Þegar grunnskólinn var fluttur frá ríki til sveitarfélaga efndi ég til fjölmargra funda til að ræða þessa miklu valddreifingu. Þá lét ég þess oft getið að ég liti á flutninginn sem fyrsta skrefið í þá átt að flytja skólann enn nær foreldrunum og hvatti til þess að þau kæmu enn frekar að skólastarfinu. Þá sagði ég einnig að æskilegt væri að efla enn ítök einkaaðila í skólastarfi.

Ég hef aldrei verið þeirrar skoðunar að ríkið eigi að setja sveitarfélögunum strangar skorður um hvernig þau standa að því að reka grunnskólana. Ljóst er að menntmrn. hefur skyldum að gegna vegna námskráa, mats og eftirlits og námsgagnagerðar. Einnig er efnt til samræmdra prófa undir forsjá ríkisins. Breytt fyrirkomulag á rekstri grunnskóla í Hafnarfirði raskar ekki með neinum hætti þessu hlutverki ríkisins og unnt verður að fylgjast með innra starfi í þeim skóla eins og öðrum. Ég sé ekki nein rök fyrir því að hér sé um útboð á börnum að ræða eins og hv. þm. orðar það svo ósmekklega og ég sé ekki heldur að með þeim tillögum sem bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur kynnt menntmrn. sé vegið að jafnræði til náms á neinn hátt. Það er skoðun þeirra sem um málið hafa fjallað innan menntmrn. að hér sé um að ræða nýbreytni í rekstrarformi sem full ástæða sé til að reyna. Meðal annars færi þetta form rekstur skóla enn nær vettvangi og geti stytt allar boðleiðir í skólastarfinu.