Útboð á kennslu grunnskólabarna

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 16:03:17 (4431)

2001-02-12 16:03:17# 126. lþ. 67.91 fundur 285#B útboð á kennslu grunnskólabarna# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[16:03]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. er hér fyrir svörum. En mér leikur nú mest forvitni á að vita hvað Framsfl. segir um þessi mál. Hér er grafalvarlegt mál á ferðinni. Það er mikið álitamál hvort þessi beiðni Hafnarfjarðarbæjar standist lög, en kröfur skynseminnar stenst hún engan veginn, nánast hvernig sem á málið er litið. Verið er að gera samning við einkafyrirtæki um að reisa og reka skóla. Það fær í sinn hlut milljarða kr. án þess að bæjarfélagið eignist húsnæðið. En það er eitt mál og er peningalegs eðlis.

Við erum að ræða um hag skólabarna og á hvern hátt hæstv. ráðherra Björn Bjarnason ætlar að standa vörð um hag þeirra. Við vitum að fjármálafyrirtæki og verktakar vilja komast inn í velferðarþjónustuna, vegna þess að þar er hagnaðarvon. Aðrir hafa um þetta efasemdir. Mér er kunnugt um það bæði í Sjálfstfl. og Framsfl. Þess vegna er núna talað um að gera tilraun. Að gera tilraun á skólabörnum í Hafnarfirði. Við þurfum að fá það upplýst í hverju þessi tilraunastarfsemi á skólabörnum á skólaskyldualdri á að felast. Og á hvern hátt á að meta útkomuna úr þeirri tilraun?

Herra forseti. Sú spurning sem ég vildi fá fyrst svarað er þessi: Hefur þetta mál verið rætt í ríkisstjórninni? Er um það einhugur að einkavæða grunnskóla á Íslandi og gera tilraun á skólabörnum eins og hér er lagt til?