Útboð á kennslu grunnskólabarna

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 16:05:09 (4432)

2001-02-12 16:05:09# 126. lþ. 67.91 fundur 285#B útboð á kennslu grunnskólabarna# (umræður utan dagskrár), ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[16:05]

Ólafur Örn Haraldsson:

Herra forseti. Stefna Framsfl. í menntamálum og rekstri grunnskóla er afdráttarlaus. Það er eitt af aðalhlutverkum ríkis og sveitarfélaga að bera ábyrgð á menntamálum, velferðarmálum og heilbrigðismálum. Sú ábyrgð felst m.a. í því að reka grunnskóla og ráða til þeirra starfa hæft starfslið, bæði kennara, skólastjóra og aðra sem að máli koma. Framsfl. er ekki á móti einkavæðingu eins og alþjóð veit, en sú stefna nær ekki til menntamála. Og sú stefna nær ekki til velferðarmála og heilbrigðismála.

Í þeirri stefnu felst líka að Framsfl. styður jafnrétti til náms. Jafnrétti til þeirra gæða sem alls staðar á landinu eiga að vera aðgengileg fyrir ungmenni. Þegar grunnskólarnir voru fluttir til sveitarfélaganna var ekki meiningin að þar ættu að verða breytingar á þeirri grundvallarstefnu. Þess vegna verðum við að líta á þessa tilraun í Hafnarfirði sem afar afmarkaða tilraun. Einkavæðing kennslu í grunnskólum er því ekki í samræmi við stefnu Framsfl.