Útboð á kennslu grunnskólabarna

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 16:18:29 (4438)

2001-02-12 16:18:29# 126. lþ. 67.91 fundur 285#B útboð á kennslu grunnskólabarna# (umræður utan dagskrár), ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[16:18]

Ásta Möller:

Herra forseti. Ég fagna ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar að leita útboða á kennslu grunnskólabarna og óska henni til hamingju með að hafa valið nýjar leiðir í rekstri grunnskóla í bæjarfélaginu. Í kjölfar ákvörðunar bæjarstjórnarmeirhlutans í Hafnarfirði hafa vinstri menn rokið upp til handa og fóta og fundið þessari ákvörðun allt til foráttu. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson hefur m.a. orðað það svo ósmekklega að verið sé að halda útboð eða uppboð á börnum í Hafnarfirði. En um hvað fjallar málið?

Málið snýst um að Hafnarfjarðarbær áformar að gera samkomulag við einkaaðila um byggingu og rekstur grunnskóla. Það er gert þannig að einkaaðilum er gefinn kostur á að bjóða í verkefnið til að m.a. verði hægt að meta menntun, hæfni, grundvallarhugmyndir og stefnu þeirra sem sækjast eftir verkefninu og velja þá bestu úr. Grunnskólinn verður rekinn á sömu forsendum og allir aðrir grunnskólar hér á landi. Hinn nýi skóli mun að sjálfsögðu byggja á aðalnámskrá sem menntmrn. setur og verða undir eftirliti stjórnvalda á sama máta og aðrir skólar. Þar sem um nýjar leiðir er að ræða er gengið út frá að eftirlit menntmrn. og sveitarstjórnar með starfsemi skólans og árangri í skólastarfi verði nákvæmara og kröfur til skólans jafnvel enn meiri en til annarra skóla.

Það er almennur skilningur og sátt um það hér á landi að samfélagsleg þjónusta eins og heilbrigðisþjónusta, félagsþjónusta og skólastarf sé að mestu kostað af opinberu fé. Því grundvallarsjónarmiði er ekki verið að breyta með ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar. Það á hins vegar ekki að vera nein kennisetning að allt sem ríkið borgar eigi ríkið einnig að reka. Stjórnvöld bera ábyrgð á að tiltekin samfélagsleg þjónusta sé í boði en hins vegar á svigrúm stjórnvalda til að fela einkaaðilum ábyrgð á rekstri stofnana samfélagsins að vera vítt og það á við í þessu tilviki. Sveitarfélagið er að fullnægja skyldum sínum um að sjá börnum sveitarfélagsins fyrir grunnskóla.