Ríkisútvarpið

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 16:25:12 (4442)

2001-02-12 16:25:12# 126. lþ. 67.9 fundur 413. mál: #A Ríkisútvarpið# (framkvæmdasjóður) frv., menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[16:25]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég flyt frv. til laga um breyting á lögum nr. 122/2000, um Ríkisútvarpið.

Frv. er einfalt. Lagt er til að 11. gr. laganna falli brott en í 11. gr. laganna er gert ráð fyrir því að starfandi sé innan Ríkisútvarpsins framkvæmdasjóður. Hann var stofnaður með breytingu á útvarpslögum árið 1970 og var þá ákveðið að 5% af heildartekjum stofnunarinnar skyldu renna í sjóðinn. Þetta hlutfall var hækkað í 10% með breytingu á útvarpslögum árið 1979.

Þau markmið sem stefnt var að með stofnun Framkvæmdasjóðs Ríkisútvarpsins voru að tryggja viðunandi húsnæði, tækjakost og dreifikerfi fyrir starfsemi Ríkisútvarpsins. Þessum markmiðum hefur verið náð. Öll starfsemi Ríkisútvarpsins hefur nú verið flutt í hús Ríkisútvarpsins við Efstaleiti og verið sameinuð þar. Samhliða flutningum hefur tækjakostur verið endurnýjaður. Þá hefur uppbyggingu dreifikerfis fyrir eina sjónvarpsrás og tvær rásir hljóðvarps, sem Ríkisútvarpinu ber skylda til að reka lögum samkvæmt, verið lokið með þeim árangri að meira en 99% þjóðarinnar ná þessum útsendingum.

Í ljósi þessa er lagt til með frumvarpi þessu að sú lagaskylda sem hvílt hefur á Ríkisútvarpinu að taka frá 10% af brúttótekjum stofnunarinnar verði felld niður. Ætti það að greiða fyrir því að Ríkisútvarpinu verði gert betur kleift en áður að framleiða og kaupa dagskrárefni til flutnings í útsendingum sínum.

Með frv. fylgir ítarleg greinargerð útvarpsstjóra sem er dagsett 1. desember árið 2000. Þar fá hv. þm. tækifæri til að kynnast þeim viðhorfum sem útvarpsstjóri setur fram, m.a. varðandi dreifikerfið. Hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Markmiðunum með stofnun Framkvæmdasjóðs Ríkisútvarpsins hefur verið náð og var það innsiglað nú fyrir skemmstu þegar sjónvarpsstarfsemi Ríkisútvarpsins var flutt í Útvarpshúsið við Efstaleiti og öll starfsemi stofnunarinnar sameinuð þar. Samhliða flutningum hefur tækjakostur verið endurnýjaður. Þá hefur uppbyggingu dreifikerfis fyrir eina sjónvarpsrás og tvær rásir hljóðvarps, sem Ríkisútvarpinu ber skylda til að reka lögum samkvæmt, verið lokið með þeim árangri að meira en 99% þjóðarinnar ná þessum útsendingum. Stórátak hefur og verið gert í endurbyggingu langbylgjukerfisins með hinum nýju sendistöðvum á Gufuskálum og Eiðum.

Á allnokkrum sveitabæjum á tiltölulega afskekktum svæðum eru enn ekki skilyrði til að ná útsendingum sjónvarpsins. Áætlað er að kostnaður vegna viðbótarsenda og annarra aðgerða við dreifikerfið til að þjóna umræddum bæjum, sem eru 41 að tölu, nemi um 120 milljónum króna. Þá er miðað við venjulega senda fyrir eina rás sjónvarpsins. Ný tækni, sem er í þróun, getur orðið álitlegur kostur við að leysa umrædd tæknivandamál með heildstæðari lausnum en viðbætur við hið hefðbundna dreifikerfi sjónvarpsins fela í sér.

Landssími Íslands hf. vinnur nú áætlun um ISDN-væðingu sveitabæja. Með ISDN-tækninni er lagður grunnur að stafrænum flutningi til símnotenda. Sá grunnur getur jafnframt verið nýttur til að flytja sjónvarpsefni frá dagskrárveitu til notenda ef fjarlægð frá stofnveitu fjarskiptakerfisins í heimahús notenda er innan viðráðanlegra marka. Þarna getur verið um tvær mismunandi lausnir að ræða. Dagskrárveita sé með efni frá fleiri stöðvum, e.t.v. frá sjónvarpinu, Stöð 2, Skjá einum o.fl., og notandinn velji efni til áhorfs eftir framboði og áhuga. Hin leiðin er að dagskrárveitan sé dagskrárháð, t.d. eingöngu með dagskrá sjónvarpsins í boði, og tæknilausnir aðlagaðar hverjum sveitabæ eða fáum sveitabæjum. Í fyrri kostinum mundi kostnaður við dreifinguna væntanlega deilast á fleiri aðila, en í þeirri síðari aðeins á sjónvarpið. Búnaður fyrir þjónustu af þessu tagi er á þróunarstigi og óvíst í hvað miklum mæli hann mun henta umræddum sveitabæjum en þróunin er ör um þessar mundir. Lausnir af þessum toga eru álitlegar þegar almennt er horft til þróunar og samkeppni á fjarskiptamarkaði.

Með hliðsjón af framansögðu`` --- segir útvarpsstjóri --- ,,á það ekki við lengur að Ríkisútvarpinu sé skylt að taka frá 10% af brúttótekjum til framkvæmda og binda í þessum sjóði, óháð því hverjar þarfirnar raunverulega eru og hvernig sem ástatt er í fjármálum stofnunarinnar að öðru leyti. Hlutverk Ríkisútvarpsins hlýtur fyrst og fremst að vera að framleiða og kaupa dagskrárefni til flutnings í útsendingum sínum.``

Herra forseti. Það er fleira að gerast en þarna er lýst og þau markmið sem menn hafa sett sér hér á landi varðandi ISDN-tengingu með þeim hætti sem hér var lýst er mjög óvenjulegt markmið því að ég veit ekki til þess að nokkurs staðar í heiminum hafi menn ákveðið að stefna að því að allir bæir í einu landi, hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli, eigi kost á því að nýta sér þessa tækni, en tækninni fleygir ört fram og stafræn tækni tekur á sig aðrar myndir. Nú er það svo að í 34. gr. nýsamþykktra útvarpslaga er gert ráð fyrir því að menntmrn. hafi ákveðið frumkvæði varðandi upptöku stafrænnar tækni við útsendingar á sjónvarpsefni sérstaklega. En þar hefur þróunin líka orðið mjög ör.

[16:30]

Við óskuðum eftir að fá þessa heimild í 34. gr. útvarpslaganna vegna þess að ekki var ljóst að það væri endilega mikill áhugi á því hjá útsvarpsstöðvum hér að nýta sér þessa tækni. Það hefur hins vegar breyst á þeim skamma tíma sem liðinn er frá því að þessi heimild fékkst. Nú mun Póst- og fjarskiptastofnun þegar hafa fengið, ég veit ekki hvort það er formlega, en a.m.k. óformleg tilmæli um að stöðvar hér fái leyfi til þess að nota hina stafrænu tækni.

Segja má að þetta ákvæði í 34. gr. útvarpslaganna sé óþarft varðandi þá heimild sem menntmrh. er þar veitt ef einstakar útvarpsstöðvar eru þegar farnar að nýta sér þessa tækni en það er Póst- og fjarskiptastofnun sem bregst við slíkum leyfisbeiðnum og úthlutar tilraunaleyfum til útsendinga á stafrænu sjónvarpi svo dæmi sé tekið.

Þetta mál hefur borið hraðar að en menn væntu. Þarna er um stórvægilegri breytingar að ræða á allri tækni til miðlunar sjónvarps- og útvarpsefnis en áður hefur þekkst. Ég vona svo sannarlega að hér á landi takist okkur að nýta þá tækni sem best, að menn haldi þannig á málum að hafa allt landið undir, ef þannig má að orði komast, strax í upphafi og hafi það sem sjónarmið þegar í hina nýju tækni er ráðist.

Eins og við vitum hafa verið boðuð áform um einkavæðingu Landssímans. Hann hefur verið samstarfsaðili Ríkisútvarpsins varðandi uppbyggingu á dreifikerfinu. Þær forsendur eru allar að breytast með einkavæðingaráformum Landssímans og þessari nýju tækni. Ég árétta að ég tel öll rök hníga að því að hætta að skylda Ríkisútvarpið til að leggja 10% af heildartekjum stofnunarinnar í þennan sérstaka framkvæmdasjóð. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. menntmrn.