Ríkisútvarpið

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 16:34:51 (4444)

2001-02-12 16:34:51# 126. lþ. 67.9 fundur 413. mál: #A Ríkisútvarpið# (framkvæmdasjóður) frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[16:34]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hér kom fram í framsögu hæstv. menntmrh., þegar hann fylgdi þessu máli úr hlaði, að markmiðum með stofnun framkvæmdasjóðs Ríkisútvarpsins hafi verið náð. Í fyrsta lagi séu nú bæði Ríkisútvarpið og sjónvarpið flutt með alla sína starfsemi í nýtt hús við Efstaleiti. Í öðru lagi sé uppbyggingu dreifikerfisins fyrir eina sjónvarpsrás og tvær rásir hljóðvarps lokið, með þeim árangri, eins og kemur fram í greinargerð frá útvarpsstjóra og fylgir frv. þessu, að meira en 99% þjóðarinnar ná nú þessum útsendingum.

Herra forseti. Vitað er að ákveðnir bæir í sveitum þessa lands ná alls ekki útsendingum sjónvarps og ekki eða mjög illa útsendingum útvarps. Því vil ég mótmæla þeirri fullyrðingu sem kemur fram í máli hæstv. menntmrh. og sömuleiðis þeirri fullyrðingu sem kemur fram í greinargerð útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins að markmiðum framkvæmdasjóðs hvað varðar uppbyggingu á dreifikerfi Ríkisútvarpsins hafi verið náð. Uppbyggingunni er ekki lokið. Þeim orðum mínum til staðfestingar má nefna tillögu, sem kannski má kalla sýndartillögu, frá nokkrum hv. þm. Sjálfstfl. sem liggur fyrir þessu þingi þar sem hv. þm. hafa áhyggjur af því að útsendingar Ríkisútvarpsins nái ekki til allra heimila á landinu.

Ég hef á tilfinningunni, herra forseti, að hér sé um frumhlaup að ræða, með framlagningu þessa frv. Ég tel röksemdir hæstv. menntmrh. hvað þessi tvö atriði varðar ófullnægjandi, þ.e. að útsending sjónvarps og útvarps nái nú til allra landsmanna eða svo gott sem. Sömuleiðis tel ég að framkvæmdasjóðurinn hafi stöðug verkefni til að standa straum af, eins og reyndar kom fram í máli hv. þm. Péturs Blöndals sem talaði hér á undan mér.

Ljóst er að hér eru einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar uppi á borðinu eins og í því máli sem rætt var um næst á undan þessu. Væntanleg einkavæðing Landssímans spilar vissulega mjög mikið inn í þetta mál. Að mínu mati kom ekki nægilega vel fram í máli hæstv. menntmrh. hvernig hann telur öll rök hníga að því að ný tækni, sem í greinargerð er nefnd ISDN-væðing, geti komið til hjálpar Ríkisútvarpinu og þeim heimilum sem enn ná ekki útsendingum sjónvarpsins og hafa ætíð mátt búa við léleg skilyrði hvað varðar móttöku á útsendingum Ríkisútvarpsins.

Kostnaðurinn er mikilvægt atriði í þessu máli. Í greinargerð útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins sem fylgir þessu frv. og eins í máli hæstv. menntmrh. kom fram, varðandi kostnaðinn við dreifinguna, við þessa tæknivæddu dreifingu, ISDN-væðingu sveitabæjanna eins og talað er um í greinargerð útvarpsstjóra, að búnaður af þessu tagi sé á þróunarstigi. Talað er um að óvíst sé í hve miklum mæli hann muni henta umræddum sveitabæjum. Hins vegar er talað um að þróunin sé ör um þessar mundir og að lausnir af þessum toga séu álitlegar þegar almennt er horft til þróunar og samkeppni á fjarskiptamarkaði.

Herra forseti. Það kann vel að vera að þær séu álitlegar en þær eru ekki ókeypis. Þess vegna spyr ég hæstv. menntmrh.: Hvaða rök hníga að því að fella úr gildi lagaákvæði um framkvæmasjóð Ríkisútvarpsins þegar það er greinilega á teikniborðinu að halda áfram að efla dreifikerfið, breyta þar um tækni og innleiða tækninýjungar? Því, herra forseti, þessar tækninýjungar eru sannarlega ekki ókeypis.

Þess er skemmst að minnast, herra forseti, að hér urðu í þingsölum umræður um fjármál Ríkisútvarpsins í stóru samhengi. Við umræður fjárlaga fyrr í vetur var ríkisstjórnin og ríkisstjórnaflokkarnir gagnrýndir fyrir afstöðu sína í þeim málum. Stjórnarandstaðan og Vinstri hreyfingin -- grænt framboð gekk hér fram fyrir skjöldu og reyndi að fá hækkuð afnotagjöld Ríkisútvarpsins, sem mönnum er enn í fersku minni að ríkisstjórnarflokkarnir vildu ekki ljá máls á því á þeim tíma. Deginum eftir að fjárlagafrv. var afgreitt héðan frá Alþingi kom hins vegar tilkynning frá hæstv. menntmrh. um hækkun afnotagjaldanna. Ekki samkvæmt áeggjan stjórnarandstöðuflokkanna. Nei, það var ekki rökstutt þannig, öðru nær. Sannleikurinn er sá að Ríkisútvarpinu hefur um árabil verið haldið í spennitreyju. Því hefur verið gert erfitt fyrir með allar sínar framkvæmdir og stór hluti af framkvæmdasjóðnum sem hér um ræðir hefur þurft að fara í rekstur.

Ég fullyrði það, herra forseti, að fram undan eru dýrar framkvæmdir hjá Ríkisútvarpinu til að standa undir lögbundnu hlutverki sínu, sérstaklega í tengslum við innleiðingu þessarar nýju tækni. Ég minni á að slíkar lausnir eru sannarlega ekki ókeypis. Ég tel þess vegna að hér sé frumhlaup á ferðinni, að fella 11. gr. laganna um Ríkisútvarpið brott.