Ríkisútvarpið

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 16:41:26 (4445)

2001-02-12 16:41:26# 126. lþ. 67.9 fundur 413. mál: #A Ríkisútvarpið# (framkvæmdasjóður) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[16:41]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. dró upp mjög dökka mynd af stöðu Ríkisútvarpsins. Ég get ekki fallist á það enda tel ég Ríkisútvarpið afskaplega vel rekið.

Tilefni þess að ég kveð mér hljóðs er hins vegar að það kom ítrekað fram í ræðu hv. þm. að Ríkisútvarpið þyrfti að standa fyrir miklum framkvæmdum varðandi dreifingu og nefndi þar sérstaklega ISDN-tengingu. Ég held ég hafi tekið rétt eftir með það. Í því samhengi er rétt að upplýsa hv. þm. um að það liggur fyrir samkvæmt fjarskiptalögum sem samþykkt voru hér á hv. Alþingi sl. vor að Landssíminn hefur tekið að sér að ljúka ISDN-tengingunni um allt land í síðasta lagi á árinu 2002. Ég nefni þetta hv. þm. til hugarhægðar.