Ríkisútvarpið

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 16:50:02 (4449)

2001-02-12 16:50:02# 126. lþ. 67.9 fundur 413. mál: #A Ríkisútvarpið# (framkvæmdasjóður) frv., EMS
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[16:50]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breyting á lögum nr. 122/2000, um Ríkisútvarpið, þar sem lagt er til að ákvæði laganna um Framkvæmdasjóð Ríkisútvarpsins verði felldur brott.

Vissulega er margt sem mælir með því að framkvæmdasjóðurinn sem slíkur verði aflagður, hann var auðvitað og er barn síns tíma. Hins vegar er nauðsynlegt að farið verði mjög vel yfir það í hv. menntmn. hvernig hagsmunir landsbyggðarinnar í þessum efnum verði tryggðir sem best. Ljóst er að framkvæmdasjóðurinn sem slíkur, þau ár sem hann hefur verið til, hefur ekki tryggt það algjörlega að skilyrði séu viðunandi um landið allt. Um 99% þjóðarinnar ná þessum útsendingum. Það er að okkar mati ekki viðunandi, heldur þarf að tryggja að þær útsendingar sem um er rætt náist alls staðar á byggðu bóli, því það er jú eitt af markmiðum Ríkisútvarpsins að það sé útvarp allra landsmanna og það getur það ekki orðið öðruvísi en að öllum séu tryggð þau skilyrði sem viðunandi eru við að hlusta og horfa á þá starfsemi sem Ríkisútvarpið sinnir.

Í greinargerð útvarpsstjóra kemur fram að 41 bær nýtur ekki dreifikerfis eða útsendingar sjónvarpsins. Eins og fram hefur komið hjá nokkrum hv. þm. er nauðsynlegt að fram komi að því miður eru skilyrði mjög slæm víðar en á þeim bæjum sem hér eru tilgreindir og auðvitað þarf að finna leiðir til að bæta það. Það er rætt um þá miklu þróun sem er í margs konar tækni og rætt um að Landssíminn sé að vinna að áætlun um ISDN-væðingu sveitabæja. Vissulega er það mjög álitlegur kostur ef tæknin býður upp á þá möguleika að leysa þann vanda með því. En það þarf auðvitað að fara mjög vel yfir það í menntmn. hvort hægt er að finna aðra leið til að tryggja sem best þessa dreifingu, því það stendur helst á því nú.

Einnig er ástæða til að skoða þetta mál í samhengi við það sem hæstv. menntmrh. ræddi um, einkavæðingu Landssímans og þá ekki síður að einnig er ætlunin að einkavæða ljósleiðarann eða grunnnetið sem að sjálfsögðu kemur hér við sögu.

En áleitnasta spurningin nú hlýtur þó að vera sú hvað því markmiði hæstv. menntmrh. líði að leggja fram breytingu á lögum um Ríkisútvarpið sem hefur væntanlega í för með sér, miðað við það sem við heyrum í fjölmiðlum, breytingu á rekstrarformi, og eins og kom fram hjá hv. þm. Pétri Blöndal að sett verði á útvarpið hf. Ég ætla ekki að ræða þær hugmyndir við umræðuna nú, enda verður væntanlega betra tóm til þess þegar það frv. kemur fram.

En nauðsynlegt er, herra forseti, að spyrja hæstv. menntmrh. hvað þessu öllu líður og hvenær við megum eiga von á tillögum hæstv. ráðherra. Hver er staðan í málinu? Er deilum stjórnarflokkanna lokið og hver verður væntanleg niðurstaða í málinu? Og einnig er nauðsynlegt að spyrja hæstv. ráðherra hvort menntmn. hafi hugsanlega nægan tíma til að yfirfara frv. sem hér er til umræðu og bíða með endanlega afgreiðslu á því þar til að annað frv. kemur frá hæstv. ráðherra sem fjallar um stærra mál tengt þessari stofnun.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri að sinni, en ítreka að hér er verið að hreyfa máli sem þarf gaumgæfilegrar skoðunar við í menntmn.