Ríkisútvarpið

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 16:54:00 (4450)

2001-02-12 16:54:00# 126. lþ. 67.9 fundur 413. mál: #A Ríkisútvarpið# (framkvæmdasjóður) frv., ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[16:54]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Hér er lagt fram frv. sem tvímælalaust horfir til bóta og framfara í rekstri Ríkisútvarpsins og er ég einlægur stuðningsmaður frv. í þeim búningi sem það kemur hér fram. Ég tel að sá málflutningur sem hafður hefur verið uppi af hv. þm. vinstri grænna og hrakspár um að ekki verði staðið við eðlilegar og sanngjarnar kröfur landsbyggðarinnar og þeirra bæja sem ekki njóta fyllstu þjónustu í útsendingum, séu ekki reistar á traustum grunni. Að sjálfsögðu verður brugðist við því hlutverki eins og áður og haldið verður áfram að byggja upp bættar sjónvarpsútsendingar til landsbyggðarinnar. Það er verkefni sem lýtur að réttlætis- og jafnræðistilfinningu okkar og við eigum að rækja það hlutverk við landsbyggðina og einstaka bæi, þó fáir séu.

Ég tel að þetta frv., ásamt ýmsu öðru sem við eigum óunnið á þessu sviði, muni leysa Ríkisútvarpið úr þeim skorðum sem hafa nokkuð heft starfsemi þess. En um leið og við slökum til og rýmkum þær skorður er nauðsynlegt að við gleymum aldrei þeim skyldum og því hlutverki sem Ríkisútvarpið hefur meðal okkar Íslendinga. Þar er að sjálfsögðu um að ræða öryggi, menningarhlutverk og aðra þá þætti sem ég geri ekki að umræðuefni hér.

En það er ekki aðeins að við þurfum að losa um þær skorður sem Ríkisútvarpinu eru settar til að veita betri þjónustu við alla landsmenn, heldur þarf Ríkisútvarpið líka að fá auðveldara og betra svigrúm til að standast þá samkeppni sem það er í. Ljóst er að við leggjum með ýmsu móti skyldur á Ríkisútvarpið í dagskrárgerðinni sem eru að mörgu leyti íþyngjandi en við teljum þó algjörlega nauðsynlegar vegna þjónustu við alla landsmenn. Að þessu leyti stendur Ríkisútvarpið höllum fæti í samkeppninni við aðrar stöðvar.

Ég vænti þess að hæstv. menntmrh. muni svara á eftir þeim fyrirspurnum sem þegar eru fram komnar um hvenær vænta megi frv. um breytingar á Ríkisútvarpinu. Þá munu öll þessi atriði koma til ítarlegrar umræðu.

En meðal þess sem við þurfum að létta af Ríkisútvarpinu er að afnema skylduáskrift að því. Ég er einlægur stuðningsmaður þess að við afnemum skylduáskriftina og öflum tekna til Ríkisútvarpsins á annan hátt svo sem á fjárlögum Alþingis. Það er enn fremur algjörlega nauðsynlegt að við breytum bæði samsetningu og hlutverki útvarpsráðs. Ég vænti þess að við fáum tækifæri til að ræða þessi mál þegar frv. hæstv. menntmrh. kemur fram, en lýsi yfir stuðningi mínum að nýju við þetta frv. sem hér er fram komið.