Ríkisútvarpið

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 16:58:10 (4451)

2001-02-12 16:58:10# 126. lþ. 67.9 fundur 413. mál: #A Ríkisútvarpið# (framkvæmdasjóður) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[16:58]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson talaði um hrakspár stjórnarandstöðunnar og þá sérstaklega vinstri grænna í því sambandi. Ég vil spyrja hv. þm. hvort hann telji að menn úti um hinar dreifðu byggðir landsins hafi ekki ástæðu til að staldra við. Einkavæðing Landssímans hefur leitt af sér ýmislegt á hinum ýmsu stöðum á landinu. Einkavæðing póstsins á sama hátt. Einkavæðing bankanna á sama hátt. Það ber allt að sama brunni. Getur hv. þm. ekki verið sammála mér um að farið er út í kerfisbreytingar án þess að sjást fyrir og brugðist er síðan við með öðrum lausnum? Þessar lausnir á svo mörgum þáttum hafa ekki litið dagsins ljós. Það er þess vegna sem menn vilja fara varlega. Þess vegna vill fólk eins og við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði staldra við og skoða málin í þaula þannig að ekki verði anað út í hluti sem menn hafa ekki hugmynd um hvernig muni enda.