Ríkisútvarpið

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 16:59:29 (4452)

2001-02-12 16:59:29# 126. lþ. 67.9 fundur 413. mál: #A Ríkisútvarpið# (framkvæmdasjóður) frv., ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[16:59]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir andsvarið. Ég vil að það sé alveg ljóst að enda þótt ég styðji þetta frv., þá vil ég með engum hætti, nema síður sé, slaka á þeim kröfum sem við gerum til Ríkisútvarpsins um jafna og góða dreifingu til allra landsmanna hvar á landinu sem þeir búa. Mér finnst hins vegar að það þýði ekki það að við getum ekki unnið að kerfisbreytingum hjá Ríkisútvarpinu. Það er síður en svo verið að tala um að hætta eigi uppbyggingu Ríkisútvarpsins. Þvert á móti.

Ég er hins vegar sammála hv. þm. um að landsbyggðin þarf verulega á stuðningi hins opinbera að halda. En það þýðir ekki að við séum aldrei tilbúin til að gera nauðsynlegar rekstrarbreytingar og þá er ég ekki að tala um einkavæðingu. Ég er ekki að tala um einkavæðingu Ríkisútvarpsins, það hef ég tekið alveg skýrt fram. En ýmislegt í rekstri Ríkisútvarpsins, svo sem framkvæmdasjóðurinn, má vel missa sín án þess að slakað sé á þeim kröfum sem ég finn að við báðir, hv. þm. og ég, deilum.