Ríkisútvarpið

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 17:13:46 (4456)

2001-02-12 17:13:46# 126. lþ. 67.9 fundur 413. mál: #A Ríkisútvarpið# (framkvæmdasjóður) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[17:13]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breyting á lögum um Ríkisútvarpið. Þessi litla lagabreyting sem hér er á ferðinni lætur svo sem ekki mikið yfir sér. Lagt er til að 11. gr. núgildandi laga um Ríkisútvarpið verði felld brott, en eins og fram hefur komið hljóðar hún svo, með leyfi herra forseta:

,,Í sjóð, sem nefnist Framkvæmdasjóður Ríkisútvarpsins, skal leggja 10% af brúttótekjum stofnunarinnar.

Fé Framkvæmdasjóðs skal verja til að tryggja viðunandi húsnæði, tækjakost og dreifikerfi fyrir starfsemi Ríkisútvarpsins.``

Hvergi annars staðar í lögunum er skýrt kveðið á um hver annars vegar skylda Ríkisútvarpsins sé til þess að byggja upp dreifikerfið og hins vegar hvernig það eigi að gera. Sú grein sem þarna er lagt til að verði felld brott kveður svo afdráttarlaust á um að þetta sé hlutverk Ríkisútvarpsins og að til þess sé ætlað ákveðið fjármagn sem beri að reiða fram.

Herra forseti. Í athugasemdum með lagafrv. þessu, segir:

,,Þau markmið sem stefnt var að með stofnun Framkvæmdasjóðs Ríkisútvarpsins voru að tryggja viðunandi húsnæði, tækjakost og dreifikerfi`` --- ég ítreka: dreifikerfi ---,,fyrir starfsemi Ríkisútvarpsins.``

Og svo kemur þessi hógværa setning sem er svona visst tákn fyrir þá sýn sem þessi ríkisstjórn hefur í byggðamálum:

,,Þessum markmiðum hefur verið náð.`` --- Það er að tryggja dreifikerfi fyrir starfsemi Ríkisútvarpsins. --- ,,Öll starfsemi Ríkisútvarpsins hefur nú verið flutt í hús Ríkisútvarpsins við Efstaleiti og verið sameinuð þar.``

[17:15]

Það er mat hæstv. menntmrh. og væntanlega hæstv. ríkisstjórnar að þessum markmiðum hafi verið náð. Maður veltir fyrir sér og ég tek undir með hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni áðan að hæstv. ráðherrar og ríkisstjórn virðast lifa í fílabeinsturni eða einhverri firringu, því það eru þó nokkuð mörg heimili hér á landi sem ekki hafa aðgengi að sjónvarpi. Og auk þess eru sjónvarps- og útvarpssendingar mjög skertar víða um land. Hvernig er með tónlistarflutninginn sem átti að vera kominn í stereó um allt land? Kannski hæstv. menntmrh. geti upplýst okkur um hvar sú tónlist heyrist með þeim hætti sem kynnt var fyrir nokkrum árum af miklum metnaði?

Ég þekki til á Vesturlandi, ekki svo langt frá Reykjavík, þar sem útsendingar frá útvarpi heyrast bara með höppum og glöppum. Fólk getur ekki valið um hvort það hlustar á Rás 1 eða 2 heldur er það skikkað til að hlusta bara á aðra rásina og þó það stilli meira að segja á eina rás, þá fær það bara hina inn. Ef þetta á að vera, eins og stendur hér, að markmiðum um dreifikerfi til allra landsmanna hafi verið náð, þá finnst mér það vera mikill hroki, herra forseti, gagnvart því fólki sem greiðir full afnotagjöld og hvort sem það greiðir þau eða ekki, þá ber því lagalegur réttur til að fá þá þjónustu með fullkomnum hætti.

Það væri einnig fróðlegt að heyra, herra forseti, frá hæstv. menntmrh. hvaða áætlanir liggja fyrir um að tryggja annars vegar fjármagn og hins vegar framkvæmdir og úrlausnir þannig að dreifikerfið nái til allra landsmanna. Ég hygg, herra forseti, að um leið og við afnemum, eins og hér er gert ráð fyrir, þennan sérstaka fjáröflunarlið til þessa, að það sé þá jafngott að lögð verði fram skýr og afdráttarlaus stefna og framkvæmdaáætlun um að þessum markmiðum verði náð. Mér finnst skorta mikið á það. Þau prósent þjóðarinnar sem búa við skerta þjónustu, sem eru reyndar fleiri en hér er verið að tala um, eru fyrir mér alveg jafnmikilvæg, þeir einstaklingar sem þarna eiga hlut að máli, hvort sem þeir búa inn til dala, meðfram ströndum landsins eða eru úti á sjó eiga alveg jafnan rétt á að fá þessa þjónustu eins og hin 95, 96, 97, 98 eða 99% sem hæstv. ríkisstjórn finnst vera nóg.

Mér finnst, herra forseti, að hér sé verið að taka ótímabærar ákvarðanir. Ég viðurkenni að ég hefði heldur viljað heyra hér flutta af hæstv. menntmrh. metnaðarfulla framkvæmdaáætlun um að ljúka því að dreifikerfið næði til allra landsmanna eins og að er stefnt og kveðið er á um í lögum. Það hefði verið mynduglegra að fá að heyra það sagt hér heldur en: Þetta er nóg komið, nú getum við lagt þessa áherslu okkar niður, við höfum náð því sem við ætluðum okkur, þó svo að ákveðinn hluti landsmanna búi áfram við skerta þjónustu.

Herra forseti. Mér finnst ástæða til að þetta komi fram og hæstv. ráðherra gefist tækifæri til að greina þessu fólki frá því hvenær það fær þessa þjónustu um leið og lagt er til að fella niður bæði áherslur laganna varðandi Ríkisútvarpið að standa að þessari þjónustu og ætlað sé sérstakt fjármagn til þess. Þá er eins gott að það fylgi með að staðið verði við þetta lagalega fyrirheit en ekki bara sagt við fólk sem ekki hefur fengið þjónustu: Þið skiptið okkur ekki lengur neinu máli, eins og hér er látið að liggja með því að segja að markmiðum um að allir landsmenn fái þessa þjónustu hafi verið náð.