Ríkisútvarpið

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 17:40:04 (4464)

2001-02-12 17:40:04# 126. lþ. 67.9 fundur 413. mál: #A Ríkisútvarpið# (framkvæmdasjóður) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[17:40]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra segist hafa tröllatrú á því að það verði stofnuninni fyrir bestu að breyta henni í hlutafélag. Ég held að sú leið, eins og í svo mörgum öðrum málaflokkum, sé leið Sjálfstfl. og Framsóknar til þess að einkavæða. Það hefur sýnt sig. Menn eru annaðhvort á leiðinni út úr hlutafélagavæðingu ríkisfyrirtækja eða búnir að því. Um þetta finnst mér málið snúast. Þetta er hin pólitíska lína í málinu. Ef allir gætu treyst því, eins og samkomulag virðist vera um víða í nágrannalöndum okkar, að um formbreytingu væri að ræða og fyrirtækið ætti að áfram að vera í opinberum rekstri þá gæti vel verið að fleiri væru á þeirri línu.

Eins og ég segi varðandi mál eftir mál á þeirri hröðu einkavæðingarstefnu sem hér gengur yfir þá treysta menn ekki öðru en að hlutafélagavæðing ríkisfyrirtækja sé eins og endranær bara fyrsti fasi í því að koma þessu í hendurnar á einkaaðilum úti um borg og bý.