Ríkisútvarpið

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 17:41:22 (4465)

2001-02-12 17:41:22# 126. lþ. 67.9 fundur 413. mál: #A Ríkisútvarpið# (framkvæmdasjóður) frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[17:41]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Það liggur alls ekki í hlutarins eðli að breyting á rekstrarformi opinberra fyrirtækja úr stofnunarformi, eins og Ríkisútvarpið er núna, og í hlutafélag í eigu ríkisins, leiði til þess að fyrirtæki verði einkavædd. Um þarf að taka sjálfstæða og sérstaka ákvörðun. Það er ekki hægt að bera þetta saman við t.d. Landssímann eða bankana. Þar hafa stjórnmálaflokkar beinlínis lýst því yfir sem stefnu sinni að selja beri þessar opinberu stofnanir, það beri að einkavæða þær. Enginn stjórnmálaflokkur hefur lýst því yfir að það eigi að gera við Ríkisútvarpið. Það hefur hvergi verið ályktað um það á stjórnmálavettvangi hér að selja beri Ríkisútvarpið. Menn verða því að draga þessi mörk þegar við ræðum þessi mál. En það hefur komið fram, herra forseti, í þessum umræðum að vinstri grænir vilja ekki draga aðrar ályktanir af þeim málum sem hér eru til umræðu en þeim sjálfum dettur í hug án tillits til þess hvernig málin eru lögð fram, eins og best hefur komið fram í málflutningi hv. þm. Jóns Bjarnasonar. Mér finnst hann því alveg dæmigerður fulltrúi vinstri grænna í þessum umræðum, þar sem alltaf eru dregnar þær ályktanir sem standast ekki þegar menn lesa þau skjöl eða heyra þær yfirlýsingar sem gefnar eru.

Og varðandi Ríkisútvarpið þá hefur enginn stjórnmálaflokkur lýst því yfir að það eigi að selja Ríkisútvarpið. Hins vegar eru æ fleiri að komast á þá skoðun að það beri að breyta því í hlutafélag í eigu ríkisins.