Ríkisútvarpið

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 17:56:47 (4470)

2001-02-12 17:56:47# 126. lþ. 67.9 fundur 413. mál: #A Ríkisútvarpið# (framkvæmdasjóður) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[17:56]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég tel mikilvægt að hér komi fram, þegar vísað er í álit starfsmanna Ríkisútvarpsins, að ég veit ekki betur en að samtök starfsmanna Ríkisútvarpsins séu mjög andvíg því að það sé gert að hlutafélagi og hafi viljað efla þessa stofnun sem þjóðarútvarp í eigu þjóðarinnar. Ég held að þeir séu frábitnir hugmyndum um að gera það að hlutafélagi jafnvel þótt það væri í eigu þjóðarinnar í formi hlutafélags. Þeir gera sér grein fyrir því að með því móti væri verið að innleiða markaðslögmálin í ríkari mæli inn í þessa stofnun en þeir telja æskilegt að gera.

Ég tek hins vegar undir það með hæstv. ráðherra að það er mikilvægt að fram fari um þessi mál róleg, yfirveguð og málefnaleg umræða þar sem menn færi fram rök sín. Ég hefði t.d. mikinn áhuga á að fá að vita hvað stendur í vegi fyrir því að Ríkisútvarpið sé rekið á þann hátt sem yfirmenn stofnunarinnar, sem hæstv. ráðherra vísar til, sækjast eftir. Hvað kemur í veg fyrir það? Þetta er stofnun sem lýtur stjórn Alþingis, fær fjárveitingaheimildir frá þinginu og síðan er hæstv. ráðherra yfirmaður þessarar stofnunar af hálfu framkvæmdarvaldsins. Er það eitthvað í hans stjórn sem kemur í veg fyrir að Ríkisútvarpið fái blómstrað? Hvað veldur því að starfsmenn telja svo brýnt að losna undan stjórn hæstv. ráðherra eða stjórnvalda? Hvað vilja menn losna við? Getur verið að þar ráði þrýstingur frá fjármálaheiminum og að pólitísk hugmyndafræði frjálshyggjunnar stýri för að einhverju leyti?