Ríkisútvarpið

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 17:59:19 (4471)

2001-02-12 17:59:19# 126. lþ. 67.9 fundur 413. mál: #A Ríkisútvarpið# (framkvæmdasjóður) frv., GHall
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[17:59]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Hér hafa verið sérkennilegar og á köflum skemmtilegar umræður um Ríkisútvarpið. Ég tel að það sé rétt skoðun hæstv. menntmrh. að Ríkisútvarpsinu verði komið í hlutafélagsform. Um það hefur verið rætt nokkuð lengi að þessi grámygla fortíðar sem heitir útvarpsráð sé löngu úrelt fyrirbrigði. Það heyrist úr herbúðum Ríkisútvarpsins, starfsmanna. Þeir taka undir að pólitískt kjörið útvarpsráð til þess að stýra þessu fyrirtæki á því herrans ári 2001 sé algerlega út úr kortinu.

[18:00]

Það hefur líka heyrst frá starfsmönnum Ríkisútvarpsins að sú leið sem hæstv. menntmrh. hefur boðað verði mikill léttir fyrir Ríkisútvarpið og muni, í þeirri hörðu samkeppni sem það á við að etja í dag, skapa allt annað andrúmsloft og starfsaðstöðu fyrir þá sem þar vinna.

Eins verð ég að minnast á þetta lögþvingaða afnotagjald sem allir verða að borga. Það er í andstöðu við skoðanir þorra þjóðarinnar að slíkt gjald skuli enn vera við lýði þegar útvarpsstöðvar eru frjálsar og orðnar fjölmargar. Í starfsumhverfi Ríkisútvarpsins í dag getur ekki gengið að gera eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson talar fyrir, að festa allt í viðjum vanans. Það hefur komið fram hjá stjórnendum Ríkisútvarpsins að hinn daglegi rekstur er í ákveðinni þvingun, það er ákveðið þvingunarform sem yfir mönnum hvílir vegna útvarpsráðs sem er pólitískt kosið. Menn eru þar að slá pólitískar keilur, jafnvel á kostnað ágætis Ríkisútvarpsins.

Út af því sem kom fram hjá Guðjóni A. Kristjánssyni vegna Gunnólfsvíkurfjalls og Bolafjalls, um að á sínum tíma hafi jafnvel verið gefin loforð þess efnis að þangað yrði hægt að leiða kapla til sjónvarps- eða útvarpssendinga. Ég finn það ekki í skráðum umræðum sem fram hafa farið á Alþingi um þetta mál en mér kann að hafa yfirsést.

Ég tek undir það sem hér hefur komið fram hjá hæstv. menntmrh. og tel að skylduáskriftin hefti starfsemi Ríkisútvarpsins. Ég tel rétt að leyfa starfsmönnum Ríkisútvarpsins að búa við frjálst rekstrarumhverfi líkt og viðgengst á öðrum fjölmiðlum í dag.