Ríkisútvarpið

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 18:05:15 (4473)

2001-02-12 18:05:15# 126. lþ. 67.9 fundur 413. mál: #A Ríkisútvarpið# (framkvæmdasjóður) frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[18:05]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Það hefur komið fram hjá hæstv. menntmrh. hvernig eigi að fara með. Það er alveg ljóst. Ég geri ekki ráð fyrir að það yrði skipað neitt útvarpsráð heldur bæru æðstu stjórnendur Ríkisútvarpsins beina ábyrgð gagnvart hæstv. menntmrh. Ég sé því enga meinbugi á því. Ég held að það yrði bara af hinu góða. Þá er ekki verið að kjósa einhverja fulltrúa í þjóðfélaginu sem ekki eru neinir sérfræðingar í rekstri útvarpsstöðva hvað þá í fjölmiðlum. Ég er sannfærður um að æðstu stjórnendur Ríkisútvarpsins vildu miklu frekar geta stjórnað þessu fyrirtæki eins og þeir hafa þekkingu og kunnáttu til án þess að vera settir undir útvarpsráð sem, með fullri virðingu fyrir því.

Varðandi skylduáskriftina þá er það mál sem ætti að skoða. Ég verð ekki var við annað en að ákaflega svipað magn auglýsinga sé í Ríkisútvarpinu og í öðrum fjölmiðlum. Hvers vegna skyldi vera svo erfitt með rekstur Ríkisútvarpsins í þeirri stöðu? Af hverju er hann erfiðari en hjá hinum frjálsu útvarpsstöðvum? Það vakna auðvitað ýmsar spurningar í kringum það. Er reksturinn miklu þyngri eða miklu erfiðari? Eru starfsmennirnir fleiri eða hvað? Eða hefur Ríkisútvarpið ekki lagað sig að breyttu formi og aðstæðum, og heldur áfram í viðjum vanans vegna þessara föstu greiðslna sem það fær árlega án þess að þurfa að hafa nokkrar áhyggjur eða takmarkaðar af rekstrinum sjálfum?