Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 18:29:03 (4477)

2001-02-12 18:29:03# 126. lþ. 67.10 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[18:29]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að bera upp eina spurningu mér til upplýsingar og fróðleiks. Hv. þm. Gunnar Birgisson talar um tíðni slysa í íþróttagreinum. Ég vil spyrja hann hvort það hljóti ekki að vera samhengi á milli slysatíðni og þess fjölda sem íþróttirnar stunda. Hann vísar í knattspyrnu og aðrar íþróttagreinar og segir að þar séu slysin tíð. Box eða hnefaleikar hafa aldrei verið fjöldaíþrótt í þeim mæli sem knattspyrna eða handknattleikur eða ýmsar aðrar íþróttagreinar hafa verið. Þess vegna spyr ég hann hvort þetta sé raunhæfur samanburður eða gefi rétta mynd.

[18:30]

Staðreyndin er sú að margir einstaklingar sem hafa lagt stund á hnefaleika hafa varað okkur við því að styðja þetta frv. eða þessa breytingu og vísa þar í eigin reynslu og annarra sem hafa lagt stund á hnefaleika enda stóð ég í þeirri trú að markmiðið með hnefaleikunum eða íþróttin gengi út á það að öðlast færni í bardagatækni. Mér hefur ekki sýnst betur en menn geri talsvert til þess að reyna að berja hver annan í höfuðið ef því er að skipta og ekkert undarlegt að af því hljótist skaði.