Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 18:33:21 (4480)

2001-02-12 18:33:21# 126. lþ. 67.10 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., Flm. GunnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[18:33]

Flm. (Gunnar Birgisson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil draga það fram enn og aftur að ef fólk ætlar að vera samkvæmt sjálfu sér í þessum málum þá eiga þeir læknar sem tala á móti þessu máli --- nú eru margir sem tala með þessu máli --- en þeir sem tala á móti eiga að vera samkvæmir sjálfum sér og banna þá þær íþróttagreinar sem þeir telja líka hættulegar. Ef ekki, til hvers eru þeir eingöngu að tala á móti þessari íþróttagrein? Hvað vakir fyrir þeim lækum sem eru á móti því? Ég spyr. (Gripið fram í.) Það getur vel verið að það verði minna hjá þeim að gera eða eitthvað. Ég veit ekki, ef við mundum banna knattspyrnu.

Í fyrra var birt grein þar sem skoskir knattspyrnumenn töldu sig hafa orðið fyrir varanlegum höfuðskaða eftir að hafa skallað blautan bolta sem er náttúrlega þungur. Þá spyr maður sjálfan sig: Á að banna knattspyrnu í rigningu eða bara leyfa hana í þurru veðri eða hvað er í gangi? Mér finnst þessi forsjárhyggja vera með ólíkindum. Núna er árið 2001 eftir Krist og ég vona að þingheimur átti sig á því.