Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 19:09:02 (4487)

2001-02-12 19:09:02# 126. lþ. 67.10 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., Flm. GunnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[19:09]

Flm. (Gunnar Birgisson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef nokkrar athugasemdir við ræðu hv. þm. Katrínar Fjeldsted. Þingmaðurinn talar, eins og oft áður, eins og það eigi að lögleiða hér atvinnumannahnefaleika. Mér finnst sá málflutningur ekki sæma hv. þm. (Gripið fram í.) Það er ekki verið að tala um það. Við erum að tala um áhugamannahnefaleika.

Ég spyr hv. þm.: Er til samþykkt frá breska læknafélaginu á móti ólympísku boxi? Er sú samþykkt einhvers staðar til? Það væri gaman að fá hana hér.

Þingmaðurinn sem er læknir talar um áverka á heila og hreyfingu heilans inni í höfuðkúpunni. Má ég spyrja hv. þm.: Hvernig verður með hreyfingu heilans inni í höfuðkúpunni þegar þungur fótbolti lendir á höfði? Getur hv. þm. lýst því fyrir þingheimi hvað þá gerist? Er einhver hætta á heilaskaða þá?

Þingmaðurinn talaði líka um að ekki væri hægt að bera þetta saman við aðrar íþróttagreinar. En það er víst hægt. Það hafa farið fram margar rannsóknir. Við erum eina þjóðin í heiminum sem leyfir ekki ólympískt box. Hvers vegna skyldum við flutningsmennirnir vera að flytja þetta ef við værum að boða einhverja stórhættu yfir landann, þ.e. að stunda einhverja íþrótt sem eru stórhættuleg? Ekki aldeilis. (Gripið fram í.) Við erum að tala um að hérna sé jafnræði, hérna geti fólk valið um hvaða íþróttir það vilji stunda og það er búið að sýna fram á að þetta er ekki eins hættumikið.

Hvað Paul Ingle varðar þá kemur það enn upp að verið er að draga inn í þetta atvinnumannahnefaleikana, ,,prófessjónal`` boxið. Það er verið að draga það inn til þess að sýna hvað þetta sé hættulegt. Við erum að tala um áhugamannahnefaleika með sérstökum höfuðhlífum og sérstökum hönskum allt öðruvísi en í atvinnumannaboxinu. Málflutningurinn má ekki vera á þessum nótum.