Skýrsla auðlindanefndar

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 14:15:02 (4500)

2001-02-13 14:15:02# 126. lþ. 68.91 fundur 291#B skýrsla auðlindanefndar# (umræður utan dagskrár), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[14:15]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Sverri Hermannssyni fyrir að hefja umræðu utan dagskrár um svo mikilsvert mál sem skýrsla auðlindanefndar er. Nýting sameiginlegra auðlinda okkar Íslendinga er einn helsti ásteytingarsteinninn í samfélaginu í dag.

Ég vil ekki gera lítið úr skipan auðlindanefndar árið 1998. Ég tel að það hafi verið heillavænlegt skref. Ég tel að vinna auðlindanefndar, þ.e. greiningin í skýrslu hennar, sé mjög góð og þar sé hægt að byggja á grunnvinnunni. Allt öðru máli gildir svo um niðurstöður, um þær er eins og gengur ágreiningur. Hér er lögð fram skýrsla sem tekur á öllum þeim sameiginlegu auðlindum sem við þurfum að takast á um hvernig skuli stjórna.

Nýting fiskimiðanna umhverfis landið og það fiskveiðistjórnarkerfi sem við búum við hefur leitt af sér ótrúlegar breytingar á samfélaginu á örskömmum tíma og auðsöfnunar á fárra manna hendur sem er afleiðing hagræðingar og byggðahruns víða um land. Þjóðin sættir sig ekki lengur við stjórnkerfi fiskveiða sem í krafti hagræðingar getur í einni svipan girt fyrir afkomumöguleika fólks. Við nýtingu sameiginlegra auðlinda landsins verður að gæta byggðasjónarmiða, þar má markaðsvæðingin ekki ráða ein.

Auðlindanefnin, eins og fram hefur komið, var ekki með sameiginlega niðurstöðu. Rætt var um fyrningarleið eða veiðleyfisgjald. Menn greinir líka á um hvort vera eigi, í framhaldi af fyrningarleið, frjáls markaður eða byggðakvóti svo dæmi sé tekið. Málið snýst nefnilega um notkun stjórnvalda á skýrslunni. Sú vinna er eftir. Grunnur skýrslunnar er góður en notkunin á skýrslunni, sú stefna sem við ætlum að taka, er algjörlega eftir. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Það er ekki við það unandi ef við fiskveiðistjórnarkerfið reynist ekki betur en svo að hinn almenni borgari komist í þá stöðu að þurfa að fara í mál við stjórnvöld ríkisins til að gæta réttar síns. Við höfum upplifað það.

Við skulum taka annað mál sem er mikið í umræðunni og af þessum meiði. Það eru þjóðlendumálin. Það gengur náttúrlega ekki að landeigendur séu settir í þá stöðu að þurfa að gæta réttar síns gagnvart ríkinu, gagnvart ásælni ríkisins, herskara lögfræðinga sem eru sendir út af örkinni af stjórnvöldum út af þjóðlendumálum.

Við getum tekið fyrir hvert sviðið á fætur öðru sem farið er í gegnum í þessari skýrslu. Við skulum bara taka orkugeirann. Þar er annað mál í uppsiglingu sem kann að valda nákvæmlega sömu vandamálum í samfélaginu og stjórnkerfi fiskveiða. Við höfum í undirbúningi, það er ekkert launungarmál, lagasetningu um gjörbreytingu á orkugeiranum þar sem heimilt verði að keyra rafmagn inn á línufyrirtæki á frjálsum markaði. Okkur láðist að fara í gegnum þá umræðu sem grunnurinn er lagður að í þessari auðlindaskýrslu. Það er í mínum huga mergurinn málsins.

Ef við víkjum aðeins að fiskveiðistjórnarkerfinu aftur þá sakna ég þess að ekki skuli rætt um það afar nákvæmlega á grunni þessarar auðlindanefndarskýrslu. Evrópusambandið fer t.d. í gegnum mjög gagnrýna umræðu um sitt fiskveiðistjórnarkerfi sem stendur, það sem þeir kalla grænu blöðin. Þar eru menn settir í þá stöðu að þeir þurfa að setja sér markmið. Þar fara menn yfir nýjan grunn að fiskveiðistjórninni og þar er farið yfir atriði sem reyndar er mjög vel fjallað um í þessari skýrslu hér. Þar eru tekin fyrir atriði eins og náttúran, vistvænar veiðar, hvert beri að stefna á þeim grunni. Þar er fjallað um samsetningu flotans og fara jafnvel í það sem ekki hefur mikið verið talað um, svæðisbundna útgerð. Þá eru menn komnir á nákvæmlega sama reit og hér heima fyrir, að tala um byggðabundinn kvóta að einhverju leyti. Þetta er í umræðunni þar á bæ.

Vegna þess hve við höfum verið bundin af því að tala um útgerðina sem bisness og afkomuna, þó ég geri ekki lítið úr því, þá höfum við alls ekki rætt þessi mál í þaula hér í þinginu út frá þessari skýrslu þannig að mönnum mætti vera ljóst hvert einstakir þingmenn og þingflokka stefna í þessum málum. Það þarf auðvitað að gera. Við höfum ekki gert það. Vinnan á grunni skýrslunnar hvað varðar fiskveiðistjórnarkerfið átti að sætta menn. Hins vegar hefur verið hlaupið yfir um átta kafla í því dæmi og þess vegna gengur vinnan eins og raun ber vitni og það er vont mál. Þess vegna er mikið fagnaðarefni frá mínum bæjardyrum séð að skýrsla auðlindanefndar skuli rædd í þinginu. Ég held að við þyrftum miklu meiri tíma til að fara í gegnum öll þessi mál.

Staðreyndin er sú að ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. keyrir blint einkavæðingarstefnu á öllum sviðum. Afleiðingarnar hafa verið að koma í ljós og eru auðvitað komnar í ljós í sjávarútveginum. Við stöndum frammi fyrir, eins og ég sagði áðan, nákvæmlega jafnstórum spurningum þegar kemur að orkugeiranum og auðlindanýtingu að öðru leyti. Þess vegna þarf að ræða þessi mál þótt því hafi hingað til verið sleppt eins og menn vita. Við sem við viljum fara aðrar leiðir höfum áhyggjur af þessu.

Ég og flokkur minn teljum nauðsynlegt að gera grundvallarbreytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Það verður að treysta rétt byggðarlaganna, sjávarbyggðanna með grunnrétti sem þeim yrði tryggður með fyrningarleið og byggðatengdum kvóta. Útfærslan á því er samningsatriði en það verður ekki gert með okkar vilja og vitund að svæla fólkið af landsbyggðinni með öflum hagræðingarinnar og frjálshyggjunnar. Þar eru menn að mínu mati að hagræða sig í hel og missa oft áttir þegar talað er um þessi mál í því samhengi.