Skýrsla auðlindanefndar

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 14:23:32 (4501)

2001-02-13 14:23:32# 126. lþ. 68.91 fundur 291#B skýrsla auðlindanefndar# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[14:23]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Í skýrslu auðlindanefndar er vikið að eignarréttindum, að nytjastofnar séu þjóðareign og að markmið laganna sé að stuðla að verndun og hagkvæmni í nýtingu nytjastofna og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Nýmæli í textanum er þjóðareign sem á að tryggja að nytjastofnar í sjó verði aldrei eign fyrirtækja eða einstaklinga.

Vestfirðingar hafa löngum haft frekar litlar mætur á kvótakerfinu enda framkvæmdin þannig að atvinnuréttur og eignir fólks í sjávarbyggðum hafa glatað verðgildi sínu. Fiskveiðrétturinn er seldur burt af þeim eina aðila sem fékk aflahlutdeildina í óveiddum fiski í sjónum, eiganda fiskiskipsins, útgerðarmanni eða mönnum í viðkomandi sjávarbyggð. Sjómennirnir og fiskvinnslufólkið verður réttlaust þegar útgerðin selur burt kvótann. Kvótinn er seldur öðrum, oftast burt úr byggðinni. Nú er eitt togaraútgerðarfyrirtæki starfandi á Vestfjörðum. Vestfirskir sjómenn hafa reynt að bjarga því sem bjargað verður með því að ná fótfestu í veiðkerfi smábátanna.

Vestfirðingar eiga nánast allt sitt undir því að fá áfram að búa við það frelsi sem verið hefur við lýði í krókakerfi smábátanna. Hingað til hefur kvótabrasksstefna stjórnvalda verið sannkölluð eyðibyggðastefna. Byggðastefnan hefur eingöngu snúið að því að bregðast við þeim vanda sem eyðibyggðastefna kvótabraskskerfisins hefur valið íbúum landsbyggðarinnar.

En hvernig ætlar auðlindanefndin að taka á vanda kvótabrasksins í þessari skýrslu? Jú, á bls. 50 segir m.a.:

,,Hins vegar er æskilegt að bæði kerfin séu byggð á sömu meginreglum, þ.e. framseljanlegum aflahlutdeildum. Það er því lagt til að allir krókabátar verði settir á aflamarkskerfi og að aflahlutdeildir verði framseljanlegar ... Nefndin mælir eindregið gegn því að við þessu sé brugðist með því að takmarka framsal á kvóta ...``

Á Vestfjörðum eru nú um 1.700 íbúar sem hafa lifibrauð sitt af fiskveiðum á krókabátum í smábátakerfinu sem gerðir eru út í aflahámarkskerfi í þorski eða sambærilegu kerfi. Á suðursvæði Vestfjarða, frá Brjánslæk til Bíldudals, eru 450 íbúar með beina hagsmuni af sjómennsku og beitningu á aflahámarksbátunum. Þá er gert ráð fyrir að fjórir séu í fjölskyldu hvers sjómanns eða beitningamanns. Á svæðinu frá Þingeyri til Súðavíkur hafa 1.000 íbúar afkomu sína að mestu leyti af veiðum í aflahámarkskerfi smábátanna. Á Ströndum eru sambærilegar tölur 150 íbúar.

Við þetta má síðan bæta krókabátum í 23 daga kerfinu sem á sl. fiskveiðiári lönduðu alls 4.300 tonnum á Vestfjörðum. Um 200 Vestfirðingar hafa afkomu sína og fjölskyldutekjur af 23 daga kerfinu. Af minni bátum Vestfirðinga, undir 30 brúttólestum að stærð, hafa 200--300 íbúar lifibrauð sitt, þ.e. 2.000--2.100 íbúar Vestfjarða lifa beinlínis af veiðum smærri fiskiskipa. Sum fiskiskipin undir 30 tonnum eru því miður kvótalaus eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson vék að í góðri ræðu sinni.

Hjá eina togaraútgerðarfyrirtækinu sem eftir er á Vestfjörðum, Hraðfrystihúsinu Gunnvöru, starfa á togurum sennilega um 100 sjómenn í 60--70 stöðugildum. Ef gert er ráð fyrir að fjórir séu í fjölskyldum þeirra sjómanna þá eiga 400 íbúar á Vestfjörðum afkomu sína af fiskveiðum togaranna beint.

Það liggur þess vegna ljóst fyrir að eigi að byggja útfærsluna á veiðkerfi smábáta á skýrslu auðlindanefndar þá yrði náðarhöggið greitt. Ríkisstjórninni mun þá takast með eyðibyggðastefnu sinni að leggja af byggð þar sem plágur fyrri alda náðu ekki að drepa niður frumkvæði og kraft íbúanna.